Samfélagið aftur í eðlilegt horf

Stjórnarráðsbyggingar í Ósló skemmdust mikið í sprengjuárás Anders Behring Breivik.
Stjórnarráðsbyggingar í Ósló skemmdust mikið í sprengjuárás Anders Behring Breivik. AFP

Noregur stóð á öndinni vegna fregna af stórri sprengingu við ríkisstjórnarbygginguna í miðborg Oslóar, nálægt höfuðstöðvum stærstu fjölmiðla landsins. Á meðan tilgátur um upphaf sprengingarinnar flugu hratt um samfélagsmiðla og fjölmiðla fóru fregnir að berast af skotárás á lítilli eyju, langt frá örtröðinni í miðborginni.

Skotárásir eru ekki algengar í Noregi og grunaði flesta að um væri að ræða einangrað tilvik á fáskekktum stað, ekkert í líkingu við það sem var að eiga sér stað í miðborginni. En þegar fréttunum fjölgaði og símtöl fóru að berast frá örvæntingarfullum ungmennum á flótta undan óðum byssumanni fór að renna upp fyrir íbúum landsins að þessi dagur var enginn venjulegur dagur. En hvaða áhrif hafa þessir atburðir haft á norskt samfélag, nú nákvæmlega fjórum árum síðar?

Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra landsins, baðst eftir að skýrslan kom …
Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra landsins, baðst eftir að skýrslan kom út afsökunar á mistökunum og sagðist sjálfur bera ábyrgð á þeim. AFP

Sjá frétt mbl.is: Ungliðar snúa aftur í Útey

Ekki þarf að rekja frekar atburðarásina sem átti sér stað þennan dag fyrir nákvæmlega fjórum árum. Karlmaður á fertugsaldri, fæddur og uppalinn í hjarta norræna velferðarkerfisins, framdi mestu voðaverk sem framin hafa verið á Norðurlöndunum upp á sitt eindæmi og án nokkurs fyrirvara. Eftir að Vesturlönd lýstu yfir stríði gegn hryðjuverkahópum frá Mið-Austurlöndum voru settir á laggirnar sérstakir viðbragðshópar og rannsóknarnefndir. Allt miðaði að því að vernda öryggi íbúa landanna.

Fáir öxluðu ábyrgð

Fyrstu viðbrögð Norðmanna þegar mesta áfallið var yfirstaðið eftir voðaverkin hinn 22. júlí voru einmitt að setja spurningarmerki við viðbrögð lögreglunnar. Norska þingið kallaði eftir rannsókn á öllu málinu frá upphafi til enda og átti sérstaklega að skoða þátt lögreglunnar, og þá hvernig slíkt voðaverk yfirhöfuð gat átt sér stað. Rannsókninni stjórnaði Alexandra Bech Gjørv og var niðurstöðum hennar skilað til norska þingsins hinn 13. ágúst 2012, rúmu ári eftir árásina. Skýrslan sjálf er 482 blaðsíður og svipti hún hulunni af fjölmörgum brotalömum í öryggismálum í landinu.

Frá minningarathöfn í Osló skömmu eftir árásirnar.
Frá minningarathöfn í Osló skömmu eftir árásirnar. AFP

Var það niðurstaða skýrslunnar að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina á ríkisstjórnarbygginguna í Osló miðað við þær upplýsingar og þekkingu sem lögreglan bjó yfir þegar árásin varð. Sneggri viðbrögð lögreglunnar strax eftir sprenginguna hefðu einnig getað komið í veg fyrir að Anders Breivik kæmist óáreittur að Útey og héldi árásum sínum áfram. Þá voru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við störf lögreglunnar á og við Útey. Aðallega voru léleg stjórnun og skipulag talin ástæða þess að ekki tókst betur til. Ekki var talið skorta mannafla eða búnað. Ekki voru kallaðar til þyrlur, sem hefðu getað aðstoðað mun betur og hraðar en raun bar vitni. 

Einnig taldi nefndin að leyniþjónusta Noregs hefði, miðað við upplýsingarnar sem hún bjó yfir, getað gripið inn í undirbúning Breivik á árásinni. Sérstaklega er það gagnrýnt að þrátt fyrir að hann hafi pantað efnivið í bílasprengjuna í gegnum netið og þær upplýsingar hafi ratað inn á borð lögreglunnar, þá hafi það ekki verið rannsakað frekar. 

Þrátt fyrir alla þessa meinbugi á viðbrögðum lögreglu varð skýrslan til þess að aðeins einn maður sagði af sér. Var það lögreglustjórinn Øystein Meland sem sat uppi með svarta-pétur að rannsókn lokinni. Margir hafa gagnrýnt þetta eftir á og telja að fleiri hefðu átt að bera ábyrgð á svo miklu skipulagsleysi.

Frá minningarathöfn við Útey árið 2012. Útey hefur nú verið …
Frá minningarathöfn við Útey árið 2012. Útey hefur nú verið opnuð að nýju og byggingar þar endurnýjaðar. Mun ungliðahreyfing Verkamannaflokksins í ágúst halda að nýju sumarbúðir á eyjunni. AFP

Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra landsins, baðst eftir að skýrslan kom út afsökunar á mistökunum og sagðist sjálfur bera ábyrgð á þeim. Lofaði Stoltenberg að sett yrði af stað átak sem miðaði að því að bæta viðbúnað lögreglunnar og leyniþjónustunnar, meðal annars með þyrlum og fleiri æfingum, en enginn tímarammi var lagður fyrir áætlunina.

Skiptar skoðanir á réttarhöldunum

Anders Breivik var handtekinn eftir árásina og strax færður í fangageymslur. Þá þegar fóru margir að grafast fyrir um fortíð hans og í ljós kom að hann hafði frá unga aldri haft áhuga á stjórnmálum. Hann var sagður þrá ekkert heitar en að verða auðugur auk þess sem hann hafði illan bifur á fjölmenningarsamfélögum og er það talin ástæða þess að hann réðst á ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins, sem berst ötullega fyrir þeim málstað. Breivik sótti í félagsskap frímúrara áður en hann fór að taka æ meiri þátt í umræðum innan öfgahópa á netinu. 

Anders Breivik í réttarhöldunum.
Anders Breivik í réttarhöldunum. AFP

Réttarhöldin hófust strax í apríl árið 2012. Norsk lög gera ráð fyrir að hægt sé að dæma einstakling í allt að 21 árs fangelsi. Margar raddir voru uppi um það hvort réttast hefði verið að skjóta hann á Útey. Aðrir töldu að málið yrði nú raunveruleg þolraun á réttarríkið og þær reglur sem gera ráð fyrir réttlátri málsmeðferð. Eftir á telja flestir að réttarhöldin og eftirmál þess séu merki um styrk réttarríkisins. Breivik fór undarlega leið í vali á verjanda. Hann bað sérstaklega um að Geir Lippestad yrði tilnefndur sem verjandi sinn, en Lippestad er nátengdur norska Verkamannaflokknum sem Breivik hafði sjálfur ráðist á. Tvisvar var framkvæmd geðrannsókn á Breivik. Fyrri niðurstaðan var sú að hann væri ósakhæfur en sú seinni að hann var talinn sakhæfur. Svo fór að Breivik var dæmdur til ýtrustu refsingar, 21 árs fangelsis, og þar af myndi hann að lágmarki sitja inni í 10 ár. Hvorki Breivik né ákæruvaldið áfrýjuðu dómnum og þar við sat.

Engin önnur réttarhöld í Noregi hafa vakið jafnmikla athygli frá síðari heimsstyrjöld. Ekki var heimilt að taka upp myndbönd í réttarsalnum með þeirri undantekningu að norska ríkissjónvarpið fékk að taka upp réttarhöldin í heild fyrir sögulegar rannsóknir. Myndböndin verða þó geymd á læstum stað í að minnsta kosti 25 ár áður en þau verða skoðuð. 

Hver voru viðbrögð samfélagsins?

Mbl.is ræddi við tvo menn sem eru virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni í Noregi, þá Mími Kristjánsson, sem er rithöfundur og fréttastjóri norska blaðsins Klassekampen, og Reyni Jóhannesson, sem er aðstoðarráðherra samgöngumála í Noregi. Greindu þeir báðir frá því hvernig þeir telja að norska samfélagið hafi breyst í kjölfar árásanna - eða ekki breyst.

Mímir Kristjánsson rithöfundur og blaðamaður.
Mímir Kristjánsson rithöfundur og blaðamaður. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Að mínu mati breytti 22. júlí norsku samfélagi ekki að neinu leyti í grundvallaratriðum. Samfélagið var fljótt aftur komið í eðlilegt horf. Það eru skiptar skoðanir á því hvort það sé gott eða slæmt,“ segir Mímir. Tekur hann sem dæmi rannsóknina á viðbrögðum lögreglunnar og takmarkaðar úrbætur sem farið var í eftir árásina. Þá nefnir hann einnig að margir, sérstaklega frá ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins, séu ósáttir með að ekki hafi verið gengið af meiri hörku fram gegn hægrisinnuðum öfgahópum sem mynda meðal annars umræðusamfélag á netinu.

Í dag verður opnað safn í Osló til minningar um …
Í dag verður opnað safn í Osló til minningar um þá sem létust í árásunum. AFP

„Það er hins vegar þannig að frá því að fyrsta áfallið var yfirstaðið urðu flestir sammála um að þessi atburður ætti ekki að leiða til gagngerra breytinga á samfélaginu með til dæmis vopnaðri lögreglu og forvirkum rannsóknarheimildum,“ segir Mímir. Hann segir að mesta muninn megi sjá á öryggi stjórnmálamanna fyrir og eftir árásina. Þá leggi leyniþjónusta Noregs ennþá mesta áherslu á að rannsaka öfgahópa meðal múslíma. „Áhugavert er þó að skoða muninn á viðbrögðum Bandaríkjamanna eftir árásirnar hinn 11. september, sem fóru í aukinn viðbúnað og stríðsrekstur, og viðbrögðum Norðmanna. Það skýrist þó sennilega af því að Breivik var „úr okkar röðum“ og hafði ekki annan menningarbakgrunn.“ Þá segir Mímir pólitíska landslagið í Noregi að mestu óbreytt.

„Ég held að hinn almenni borgari í Noregi hafi einfaldlega viljað að árásin hefði sem minnst áhrif á þeirra daglega líf og að samfélagið myndi snúa aftur í hefðbundið horf. Það sást til dæmis vel þegar réttarhöldin yfir Anders Breivik hófust. Þá útbjuggu vefmiðlar sérstakar útgáfur af netsíðum sínum sem voru án frétta af réttarhöldunum. Einnig má nefna að strax sama ár og árásin varð var gefinn út fjöldi bóka um atburðina en engin þeirra seldist vel. Fólk hafði einfaldlega ekki áhuga á að lesa þær.“ Að þessu sögðu nefnir Mímir að þótt fólk hafi orðið þreytt á endalausum fréttum af málinu hafi Norðmenn aldrei litið framhjá alvöru atburðanna og áhrifunum á ættingja og vini hinna látnu.

Frá minningarathöfn í Útey árið 2012.
Frá minningarathöfn í Útey árið 2012. AFP

Helstu óánægjuraddirnar með það hvernig umræðan hefur þróast í landinu segir hann koma frá ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins. Hún hafi viljað sjá veigameiri aðgerðir gegn öfgahægriöflum. „Þar skiptist hins vegar hópurinn í tvennt því margir hinna eftirlifandi eftir árásirnar eru líka á öndverðum meiði og vilja að samfélagið komist strax aftur í fyrra horf.“

Hélt að samfélagið yrði aldrei samt

Aðspurður hvort hann hafi búist við svo litlum breytingum á norsku samfélagi þegar árásin var nýafstaðin svarar hann því neitandi. „Það ríkti tilfinningaríkt ástand í fjöl- og samfélagsmiðlum dagana eftir árásina. Ég man að maður hugsaði að samfélagið væri nú breytt að eilífu og hluti sem áður var í lagi að segja upphátt mætti ekki lengur segja. En um mánuði eftir árásina var tilfinningaástandið yfirstaðið þótt það skjóti upp kollinum við tilefni eins og réttarhöldin og svo á dögum eins og í dag.“

„Árás á pólitíska kerfið okkar“

Reynir Jóhannesson er að mörgu leyti sammála Mími um það að atburðirnir hafi í grundvallaratriðum ekki breytt norsku samfélagi. „Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að leyfa samfélaginu að halda áfram að vaxa og dafna. Við verðum áfram að halda uppi heilbrigðiskerfi og löggæslu og við viljum bæta okkur í því sem við getum bætt okkur í.

Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgönguráðherra Noregs.
Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgönguráðherra Noregs.

En á svona degi, svo ég tali fyrir sjálfan mig, þá hugsa ég minna um öryggismál heldur frekar um þá sem misstu ættingja, vini og börn. Það er gríðarlegur fjöldi fólks. Ég vinn í dag í ráðuneyti þar sem fólk slasaðist alvarlega í sprengingunni. Síðan sit ég á hverjum degi og horfi á skrifstofubygginguna sem fór verst út úr sprengingunum.“

Nú í september fara fram sveitarstjórnarkosningar í Noregi líkt og fyrir fjórum árum og er kosningabaráttan hægt og rólega að fara af stað. Reynir minnist þess hvernig allir flokkar tóku höndum saman og ráku heilbrigða kosningabaráttu eftir atburðina árið 2011, þrátt fyrir erfiða tíma.

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

„Þetta var árás á pólitíska kerfið okkar og það myndaðist samhugur. Verkamannaflokkurinn náði líka að heyja kosningabaráttu með aðdáunarverðum hætti. Fólk fór og greiddi atkvæði, sem er einmitt það sem Breivik hafði barist gegn. Hann vildi skaða lýðræðiskerfið okkar. Þetta er ákveðinn styrkleiki sem við sýndum með því að láta þetta ekki hafa áhrif á kosningabaráttuna. Honum tókst ekki að hefta pólitíska umræðu og enn í dag eru stjórnmálamenn að takast um alls kyns mál á hverjum einasta degi.“

Spornað gegn því að ungt fólk sæki í öfgafélagsskap 

Reynir segir umræðuna um vopnaburð lögreglunnar ekki vera einfalda. 

„Það reyna flestir að láta þessa atburði hafa sem minnst áhrif á sig. Fyrir þá sem upplifðu árásina er þó ekki hægt að komast hjá því að setja spurningarmerki við það hvernig öryggismálum og viðbúnaði lögreglu var háttað. Umræða hefur verið um vopnaburð lögreglu eftir árásina. Lögreglan er með vopn í bílum og eftir atvik sem varð í fyrra var viðbúnaður meðal annars á flugvöllum aukinn til muna og lögreglan var afar sýnileg á götum.“

Aðspurður hvort hann telji að Norðmenn séu frekar tilbúnir til þess að samþykkja vopnaburð lögreglu eftir árásina segir Reynir málið ekki svo einfalt. „Fólk vill ekki þurfa að hafa vopnaða lögreglu en það gerir sér hins vegar frekar grein fyrir því að það er til brenglað fólk og þetta hefur gerst í mörgum löndum í kringum okkur. Við höfum verið að sjá til þess eftir árásirnar að lögreglan hafi þau verkfæri sem hún þarf til að takast á við allar aðstæður og að það séu settir fjármunir í lögregluna. Við einbeitum okkur að því að lögreglan fái þjálfun við mismunandi aðstæður til þess að hún geti komið í veg fyrir að svona gerist en líka svo hún geti brugðist rétt við ef ske kynni að slíkt skyldi aftur gerast,“ segir Reynir.

Hann segir dómsmálaráðherra og dómsmálanefnd norska þingsins hafa lagt mikla áherslu á að berjast gegn öfgahugsun og vilji sporna gegn því að ungt fólk leiðist út í öfgafélagsskap.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert