Hefjast viðræður á þriðjudag?

Kona kaupir hvítlauk við fiskmarkað í Aþenu í dag. Mikil …
Kona kaupir hvítlauk við fiskmarkað í Aþenu í dag. Mikil óvissa ríkir enn um efnahagslega framtíð Grikklands. AFP

Viðræður um nýjan lánapakka til handa Grikkjum hefjast á þriðjudag, ef marka má heimildarmann AFP innan gríska stjórnkerfisins. Teymi frá þríeykinu svokallaða eru væntanleg til Aþenu um helgina og hátt settir embættismenn í lok vikunnar.

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vildi ekki staðfesta þessar fregnir í samtali við AFP, en sagði að von væri á fulltrúum lánadrottnanna til Grikklands á „næstu dögum“.

Aðilar beggja megin borðsins eru undir miklum þrýstingi að ná saman fyrir 20. ágúst nk. en þá þurfa stjórnvöld í Aþenu að standa skil á 3,2 milljarða evra greiðslu til Seðlabanka Evrópu, sem það á ekki fyrir.

Declan Costello hjá framkvæmdastjórninni, Rasmus Ruffer hjá Seðlabankanum og Delia Velculescu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum munu leiða viðræður við Grikki, samkvæmt heimildarmanninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert