Hvað gerist næst í Grikklandi?

AFP

Samningamenn frá lánardrottnum Grikklands - Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska seðlabankanum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins - komu til Aþenu í fyrsta sinn í gær í langan tíma. Talið er að viðræður um þriðja lánapakkann til handa Grikkjum hefjist á mánudaginn.

Sem kunnugt er gáfu lánardrottnarnir fyrr í vikunni grænt ljós eftir að gríska þingið samþykkti og lögfesti umbætur sem lánardrottnarnir telja nauðsynlegar til að hefja viðræðurnar.

Hvað mun nú taka við?

Pierre Moscovici, framkvæmdastjóri efnahagsmála hjá Evrópusambandinu, hefur sagt að vilji evruríkjanna standi til þess að ná samkomulagi við Grikkja um þriðja lánapakkann ekki síðar en í seinnihluta ágústmánaðar. Dagsetningin sem margir hafa í huga er nánar tiltekið 20. ágúst.

Þá verða Grikkir að standa skil á tveimur stórum afborgunum af láni Evrópska seðlabankans. Sú fyrri, sem var reyndar á gjalddaga 20. júlí síðastliðinn, nemur 3,5 milljörðum evra en sú síðari nemur 3,2 milljörðum evra. Ef Grikkir geta ekki greitt bankanum, þá þykir líklegt að skrúfað verði fyrir frekari lánveitingar til landsins.

Evrópski seðlabankinn muni með öðrum orðum hætta að veita grískum bönkum lánafyrirgreiðslu undir formerkjum ELA.

Gríska bankakerfið hefur verið mjög háð þessum lánum á undanförnum mánuðum; þau hafa raunar haldið kerfinu gangandi.

Sumir embættismenn í Brussel efast um að hægt sé að ná samkomulagi við Grikki um þriggja ára björgunaráætlun á aðeins fáeinum vikum. Það hafi yfirleitt tekið marga mánuði. Einn embættismaður bendir sérstaklega á 11. ágúst næstkomandi sem lokafrest. Þá muni fjármálaráðherrar evruríkjanna hittast á nýjan leik í Brussel og - mögulega - ganga frá samningi.

En ef ekkert samkomulag næst fyrir 20. ágúst er líklegt að leiðtogar evruríkjanna geri það sama og þeir gerðu 20. júlí: veiti Grikkjum svokallað brúarlán til að hjálpa þeim að mæta fjármögnunarþörf sinni þar til samningar nást.

Ræða um vinnulöggjöfina

Á undanförnum tveimur mánuðum hafa viðræðurnar á milli grískra stjórnvalda og lánardrottnanna snúist aðallega um tvö mál: að einfalda flókið virðisaukaskattkerfi í landinu og umbreyta lífeyriskerfinu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að sé ósjálfbært í núverandi mynd. Tillögurnar sem gríska þingið hefur samþykkt að undanförnu miða að því að festa þessar nauðsynlegu umbætur í lög.

Á næstu vikum mun umræðan snúast í meira mæli um grísku vinnulöggjöfina og íþyngjandi takmarkanir á grískum framleiðslumarkaði. Lánardrottnarnir telja að þar sé mikið svigrúm til umbóta, að því er fram kemur í umfjöllun Financial Times.

Það gæti hins vegar reynst þrautin þyngri að grípa til róttækra breytinga á vinnulöggjöfinni, sem þykir heldur ströng. Stjórnarflokkurinn, Syriza, hefur ávallt lagst gegn slíkum breytingum og segir að með þeim sé starfsumhverfi hundruð þúsunda Grikkja ógnað.

Ekki rætt um skuldaniðurfellingar

Ekki verður hins vegar rætt um skuldaniðurfellingar til handa Grikkjum, í næstu viðræðulotu, þrátt fyrir að grísk stjórnvöld hafi krafist þess að slíkar niðurfellingar verði hluti af þriðju áætluninni.

Leiðtogar evruríkjanna hafa sagst vera tilbúnir til að „íhuga“ málið, ef það reynist „nauðsynlegt“, eftir að áætlunin hefur verið endurskoðuð að minnsta kosti einu sinni. Ólíklegt er að það gerist fyrr en í nóvembermánuði.

Og það sem meira er, þá hafa evruleiðtogarnir aðeins gefið til kynna að endurskipulagning á níðþungum skuldum gríska ríkisins muni fela í sér að gjalddögum á lánum verði frestað. Þeir hafa ekki ljáð máls á beinum skuldaafskriftum, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kallað eftir.

Djúpur klofningur innan Syriza

Eftir atkvæðagreiðslurnar í gríska þinginu á seinustu vikum er mikill og djúpur klofningar innan stjórnarflokksins, Syriza. Tóku tíu nýir ráðherra og aðstoðarráðherrar sæti í ríkisstjórn Grikklands eftir að leiðtogi flokksins, Alexis Tsipras forsætisráðherra, stokkaði upp í stjórn sinni.

Margir fréttaskýrendur telja stöðu Tsipras slæma. Það muni reynast honum erfitt að halda völdum eftir að hafa þurft að reiða sig á stjórnarandstöðuna til að lögfestar umbæturnar.

Því hefur verið velt upp að ef ekki tekst að lægja öldur innan flokksins, þá muni Tsipras jafnvel boða til nýrra kosninga til að reyna að styrkja stöðu sína á þinginu. Ólíklegt verður hins vegar að teljast að það gerist áður en samið verður við lánardrottnana. Innanríkisráðherra Grikklands hefur sagt að líklegt sé að boðað verði til kosninga með haustinu, líklegast í september eða október.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP
Biðröð fyrir framan gríska bankann Alpha.
Biðröð fyrir framan gríska bankann Alpha. AFP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert