Skátar hleypa samkynhneigðum inn

Fimmtíu skátar tjölduðu í garði Hvíta hússins í júní sl.
Fimmtíu skátar tjölduðu í garði Hvíta hússins í júní sl. AFP

Á morgun verða þáttaskil í sögu bandarísku skátahreyfingarinnar en þá geta fullorðnir samkynhneigðir einstaklingar gerst leiðtogar og foringjar innan hreyfingarinnar í fyrsta sinn í sögunni. Breytingin nær einnig til annarra starfsmanna skátahreyfingarinnar.

Deilur um málið hafa staðið yfir lengi og hafa þær verið svo harðar að legið hefur við klofningi innan hreyfingarinnar. Þrýstingur hefur aukist um að falla frá útilokandi reglum gegn samkynhneigðum, bæði frá almenningi og stuðningsaðilum hreyfingarinnar, en þá hefur hún einnig átt lögsóknir yfir höfði sér vegna þeirra.

Mismununin er meðal þeirra þátta sem hafa gert það að verkum að áhugi á og þátttaka í störfum hreyfingarinnar hefur minnkað en nú er svo komið að um 70% allra deilda njóta stuðnings kirkja af einhverju tagi.

Kirkjurnar eru sumar hverjar mjög á móti því að fullorðnum samkynhneigðum einstaklingum verði hleypt inn í hreyfinguna og því hefur verið gripið til þess ráðs að heimila þeim hópum sem njóta stuðnings trúfélaga að velja leiðtoga og foringja sem samrýmast siðferðislegum gildum þeirra.

Það var fyrst árið 2013 sem hreyfingin opnaði dyr sínar fyrir samkynhneigðum ungmennum.

Afar ítarlega frétt um málið er að finna hjá New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert