Neyðarfundur hjá NATO

Sendinefndir frá öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, 28 talsins, munu taka þátt í neyðarfundi vegna  árása Tyrkja á kúrdíska skæruliða og Ríki íslams. 

Fundurinn verður haldinn Brussel og eru það Tyrkir sem óskuðu eftir því að hann yrði haldinn, samkvæmt frétt BBC. Undanfarna daga hafa Tyrkir blandast inn í átökin í Sýrlandi.

Tyrkir og Bandaríkjamenn hafa samið áætlun um að liðsmenn herskárra íslamistahópa, einkum Ríkis íslams (IS), verði flæmdir frá um 100 km breiðri landræmu í Sýrlandi sunnan við landamærin að Tyrklandi. Er ætlunin að eiga í því skyni samstarf við hópa tiltölulega hófsamra uppreisnarmanna sem eins og IS og aðrir íslamistar berjast gegn stjórn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta.

Tyrkir segja að landræman áðurnefnda geti orðið griðasvæði fyrir óbreytta borgara í Sýrlandi sem hrakist hafa frá heimilum sínum.

Undanfarna daga hafa Tyrkir gert loftárásir gegn Ríki íslams í Sýrlandi og liðsmönnum PKK, samtök tyrkneskra Kúrda, í norðurhluta Íraks. Árásunum hefur verið svarað með árásum á landsvæði Tyrkja.

Tyrkir, sem eiga aðild að NATO, fara fram á fundinn á grundvelli þess að ráðist hafi verið á eitt aðildarríkja NATO. Þetta er í fimmta skiptið frá stofnun NATO sem farið er fram á fund af þessum sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert