Segir af sér og biðst afsökunar

John Sewel.
John Sewel.

John Sewel, lávarður, hefur sagt af sér þingmennsku eftir að breska dagblaðið The Sun birti myndskeið af honum í samkvæmi þar sem hann sést taka kókaín í nefið innan um vændiskonur.

Sewel, sem er 69 ára gamall, sagði af sér þingmennsku í lávarðadeildinni í dag og baðst afsökunar á þeim sársauka og vandræðum sem hann hafi valdið. Á mynd sem The Sun birti sést þingmaðurinn og varaforseti lávarðadeildar breska þingsins, klæddur appelsínugulum brjóstahaldara að spjalla við vændiskonur.

Í myndskeiðinu má sjá Sewel afklæðast í samkvæmi heima hjá sér fyrir rúmum tveimur vikum. Með honum í samkvæminu voru tvær vændiskonur. Er hann sagður hafa fengið sér þrjár línur af kókaíni á 45 mínútum.

Breska lögreglan hefur hafið rannsókn á framferði hans og leitaði á heimili hans, lúxusíbúð skammt frá breska þinghúsinu, í gærkvöldi. 

Í yfirlýsingu sem Sewel sendi frá sér í dag kemur fram að hann hafi óskað eftir lausn frá þingmennsku.

Í gær sagði forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, að það vekti upp spurningar um hvort það væri viðeigandi fyrir Sewel að taka þátt í lagasetningu á sama tíma og svo alvarlegar ásakanir hafi komið fram gegn honum.

Segir ekki af sér þingmennsku

Forsíðufréttir The Sun um málið.
Forsíðufréttir The Sun um málið. Mynd/The Sun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert