Yngsti morðingi Bandaríkjanna látinn laus

Catherine Jones og bróðir hennar, Curtis Fairchild Jones.
Catherine Jones og bróðir hennar, Curtis Fairchild Jones. AFP

Yngsti Bandaríkjamaðurinn til að hljóta dóm fyrir morð var aðeins 12 ára þegar hann fór í fangelsi. Hann var látinn laus í dag eftir að hafa afplánað 16 ára dóm fyrir að drepa kærustu föður síns.

Curtis Jones, sem nú er 29 ára gamall, var sakfelldur ásamt 13 ára systur sinni Catherine Jones og stungið í fangelsi árið 1999. Honum var sleppt úr South Beach fangelsinu í Flórída klukkan sjö að staðartíma í morgun.

Árið 1999 voru systkinin yngsta fólkið í sögu Bandaríkjanna sem ákært var fyrir morð, en þau voru meðhöndluð í réttarkerfinu eins og um fullorðið fólk væri að ræða. Þau játuðu að hafa orðið kærustu föður þeirra, Sonya Nicole Speights að bana.

Upprunalega var talið að þau hefðu drepið hana sökum afbrýðisemi, en fréttir á vefsíðunni Florida Today benda til þess að þau hafi drepið konuna sökum þess að þau voru misnotuð kynferðislega af karlkyns ættingja.

Talið er að þau hafi ætlað að drepa föður sinn og kærustu hans því þeim fannst þau hundsa þjáningu sína. Eftir að þau höfðu skotið Speights urðu þau hins vegar mjög óttaslegin og földu sig á heimili fjölskyldunnar, þar sem þau voru handtekinn næsta dag.

Jones verður á skilorði ævilangt. Systir hans verður fljótlega látin laus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert