„Ég festist í draumaheimi“

Joyce Mitchell, 51 árs, Richard Matt, 49 ára, pg David …
Joyce Mitchell, 51 árs, Richard Matt, 49 ára, pg David Sweat, 35 ára. AFP

Þetta byrjaði með sakleysislegu spjalli. Svo daðri. Joyce Mitchell var uppi með sér vegna athyglinnar sem hún fékk frá tveimur föngum í öryggisfangelsi í New York-ríki þar sem hún vann. Hún gerði þeim greiða með glöðu geði. Seinna átti hún eftir að verða ákærð fyrir að aðstoða mennina tvo, sem voru dæmdir morðingjar, við að flýja. Mennirnir voru á flótta í 22 daga. Fljótlega var ljóst að Mitchell hefði aðstoðað þá en það var ekki fyrr en í gær að hún játaði brot sitt. 

Fjallað er um samband Mitchell og fanganna tveggja í ítarlegri grein í Washington Post. 

Í fyrstu voru greiðarnir sem fangarnir Richard Matt og David Sweat báðu Mitchell um smávægilegir, t.d. að koma skilaboðum til ættingja þeirra. En smám saman fóru þeir að ætlast til meira af henni. Mitchell tók stöðugt meiri áhættu. Og sakleysislega daðrið breyttist í kossa á laun og kynmök. Innan skamms var Mitchell farin að smygla sagarblöðum inn í fangelsið, farin að leggja á ráðin um að koma eiginmanni sínum fyrir kattarnef og stinga af með föngunum tveimur. 

„Ég festist í draumaheimi,“ sagði hún í skýrslutöku hjá lögreglu, samkvæmt gögnum sem fréttastofa NBC hefur komist yfir og birt. 

En á síðustu stundu varð Mitchell gripin hræðslu. Og í stað þess að mæta aka flóttabílnum frá fangelsinu fór hún á sjúkrahús. 

En fangarnir héldu sínu striki og brutust út úr Clinton-fangelsinu. Þaðan sluppu þeir 6. júní og næstu vikur á eftir fór fram ein umfangsmesta leit sem gerð hefur verið að strokuföngum í Bandaríkjunum. 

Mitchell var yfirheyrð og síðar handtekin. Hún var skömmu síðar ákærð fyrir að hafa aðstoðað mennina við strokið. 

Í gær játaði hún svo grátandi brot sín fyrir dómi. New York Times segir að hún hafi gert samkomulag við saksóknarann sem felur engu að síður í sér að hún á yfir höfði sér fangelsisdóm, allt frá 27 mánuðum til sjö ára. 

Lögreglan skaut Matt til bana þann 27. júní, þremur vikum eftir að hann slapp úr fangelsinu. Tveimur dögum síðar var Sweat handtekinn. 

En hvað varð til þess að 51 árs starfsmaður á verkstæði fangelsisins ákvað að aðstoða tvo menn, dæmda fyrir hrottaleg morð, við að flýja úr einu rammgerðasta fangelsi Bandaríkjanna?

Í grein Washinton Post segir að Mitchell hafi haustið 2013 kynnst Matt og Sweat í fangelsinu. Vel fór á með þeim. Mennirnir voru góðir við hana og hún upplifði sig sérstaka í þeirra augum. Sweat var síðar fluttur á annað verkstæði í fangelsinu til að engan myndi gruna að hann ætti í nánu sambandi við Mitchell. Hún heldur því reyndar fram að á þessum tíma hafi samband þeirra ekki verið orðið kynferðislegt. 

En Matt fór hvergi og vann áfram á verkstæði Mitchell. Þeim varð vel til vina. Vináttan óx og í nóvember 2014 spurði Mitchell Matt, sem var fær listmálari, að mála mynd af börnunum hennar þremur. Hún ætlaði að gefa eiginmanni sínum myndina í brúðkaupsafmælisgjöf. Matt féllst á þetta en ætlaðist einhverra launa, viðvika, fyrir verkið. Hann bað hana að útvega sér ýmisleg verkfæri, hanska og gleraugu með ljósum á. Hann sagði Mitchell að þetta ætlaði hann allt saman að nota til að geta málað á nóttinni. 

Mitchell færði Matt einnig sætabrauð sem hún bakaði sjálf. Í apríl í ár, er þau voru tvö ein saman, greip hann hana og kyssti í fyrsta sinn. 

„Mér brá,“ sagði Mitchell við lögregluna. Hún segist einnig hafa verið hrædd þar sem eiginmaður hennar vann einnig í fangelsinu. Skömmu síðar bað Matt hana að útvega sér skrúfjárn. Hún spurði engra spurninga og færði honum verkfærið. 

Í maí bað Matt hana um munnmök sem hún samþykkti. Hún lýsti því fyrir lögreglunni að í nokkur skipti hefði hann komið til hennar í sloppi sem búið var að klippa gat á svo hún gæti snert kynfæri hans. Samband hennar við Sweat var líka kynferðisleg eðlis. Hún bað Matt að lauma til hans kynferðislegum skilaboðum, m.a. myndum af sér nakinni. 

Í grein Washington Post kemur fram að Mitchell sé ekki fyrsta konan sem falli fyrir dæmdum glæpamönnum. Fjöldamorðingjarnir Charles Manson og Ted Bundy fengu þúsundir ástarbréfa. Þessi hegðun er það þekkt fyrirbæri að geðlæknar hafa gefið henni nafn, hybristophilia, þ.e. þegar fólk dregst kynferðislega að manneskjum sem hafa framið hroðalega glæpi.

Brenda Smith, prófessor í lögfræði American University, segir ekkert ótrúlegt við það að fangar og starfsfólk fangelsa eigi í samböndum. Fólk umgangist hvert annað í einangruðu umhverfi og kynnist vel. „Raunveruleikinn er sá að sambönd geta þróast.“

Fangarnir kunna þó að hafa annað markmið með kynnunum en starfsfólk fangelsanna. Þannig eru dæmi um að þeir noti samböndin til að fá ákveðin forréttindi. 

Geðlæknirinn Elie Godsi segir í viðtali við BBC að lífið í fangelsunum sé mjög ólíkt því sem gerist fyrir utan múrana. Þá sé starfsfólki fangelsa bannað að eiga í nánum samböndum við fanga sem flæki slík sambönd vissulega. „Þetta eru aldrei eðlileg sambönd,“ segir hann, heldur óraunveruleg, „rósarlituð“.

Þegar rósarroðinn fór af samböndum Mitchell við Matt og Sweat var hún orðinn of flækt í flóttaáætlun þeirra. Hún sagði lögreglunni að hún hafi uppgötvað að þeir hefðu gert holu í vegg klefa sinna í maí. En hún gerði ekkert. „Ég var þá þegar að færa þeim hluti, og mér fannst ég ekki geta hætt.“

Mitchell færði þeim verkfærin undir það síðasta falin inn í hamborgarakjöti. Hún hafði túpur af málningu með í pakkanum svo að fangavörðunum myndi ekki gruna að járnhlutir væru faldir í kjötinu. 

Samkvæmt áætlun sem þremenningarnir gerðu átti Mitchell að byrla eiginmanni sínum ólyfjan. Hann átti þá að sofna svo hún gæti tekið jeppann, sem átti að vera fullur af fötum, byssu, tjöldum og öðrum búnaði, og hitta fangana á ákveðnum stað utan fangelsisveggjanna. 

En þegar flóttadagurinn rann upp þá guggnaði Mitchell. Hún ók á næsta sjúkrahús og var lögð inn. Er hún vaknaði í sjúkrarúmi morguninn eftir fékk hún upplýsingar um að lögreglan væri að leita að henni. 

„Ég held að ég hafi hjálpað föngunum Matt og Sweat að sleppa því að ég var föst í draumaheimi,“ sagði hún lögreglunni. „Ég naut athyglinnar og hvernig mér leið í kringum þá og hugsunarinnar um annað líf.“

Joyce Mitchell var leidd fyrir dómara í gær þar sem …
Joyce Mitchell var leidd fyrir dómara í gær þar sem hún játaði brot sín. AFP
Leitin að strokuföngunum stóð í þrjár vikur.
Leitin að strokuföngunum stóð í þrjár vikur. AFP
Joyce Mitchell var of flækt í flóttaáætlunina. Hún guggnaði hins …
Joyce Mitchell var of flækt í flóttaáætlunina. Hún guggnaði hins vegar á því að aka flóttabílnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert