Eineygður með „sérstakan“ húmor

Aðeins örfáar ljósmyndir eru til af Mullah Omar. Hann gaf …
Aðeins örfáar ljósmyndir eru til af Mullah Omar. Hann gaf líka aðeins einstaka sinnum færi á sér í viðtöl. AFP

Skuggi Mullah Omar, leiðtoga talíbana, hefur í fleiri ár verið yfir Afganistan eða allt frá því að hann leiddi hóp ungra íslamista til valda fyrir um tveimur áratugum. Við tók miskunnarlaus stjórn talíbana, innleiðing strangra sjaría-laga með aukin kúgun kvenna og margvíslegum boðum og bönnum

Stjórnvöld í Afganistan rannsaka nú hvort að Omar sé dáinn, að sögn talsmanns forsetaskrifstofunnar. Ýmsar fréttastofur, m.a. Breska ríkisútvarpið, hefur eftir heimildarmönnum innan stjórnarinnar að svo sé. Reyndar hafa sögusagnir um andlát hans lengi verið á kreiki en BBC segir að mögulega hafi hann verið dáinn í 2-3 ár. Á þeim tíma hafa talíbanar þó sent út skilaboð í hans nafni. 

Frétt mbl.is: Helsti leiðtogi talíbana allur

Eineygði leiðtoginn Omar hefur alla tíð vakið hörð viðbrögð víðs vegar um heim fyrir skoðanir sínar og ofríki. Samkvæmt sjaría-lögum bannaði stjórn hans t.d. flestar íþróttir, sjónvarp og tónlist. 

Hann uppskar reiði í Bandaríkjunum er hann skaut skjólhúsi yfir Osama bin Landen, leiðtoga Al-Qaeda. Þetta varð m.a. til þess að Bandaríkjamenn gerðu innrás í Afganistan í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.

Er ríkisstjórn hans var steypt af stóli það sama ár fór Omar í felur en leiddi engu að síður skæruhernað gegn ríkisstjórn Afganistans.

Omar hefur reyndar ekki sést opinberlega frá árinu 2001 en þó áfram sameiningartákn talíbana sem reyndu ítrekað að komast til valda á ný. 

Þrátt fyrir að vera einn eftirlýstasti maður heims er fátt vitað um hann. Aðeins örfáar ljósmyndir eru til af honum. Í einu örfárra viðtala sem tekin hafa verið við hann sagðist hann aldrei hafa flogið í flugvél og aðeins farið einu sinni frá Afganistan og þá til nágrannaríkisins Pakistan. 

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hét hverjum þeim sem myndi finna Omar peningaverðlaunum, 10 milljón dollurum. Á vefsíðunni þar sem hann er eftirlýstur eru tvær myndir af honum. Upplýsingar um útlit hans eru litlar, aðeins þær að hann sé hávaxinn karlmaður með svart skegg og ör eftir flísasprengju við hægra augað.

Í apríl á þessu ári voru svo allt í einu birtar persónulegar upplýsingar um hann á netinu, í tengslum við uppgang Ríkis íslams sem sagt er taka talíbönum opnum örmum. Þar er hann sagður hafa mikla persónutöfra og taka þátt í skipulagningu hernaðar Ríkis íslams. 

Í þeirri grein, sem AFP-fréttastofan vísar til, er eftirlætis vopn hans sagt vera RPG-7 sprengjuvarpa, hann sagður hafa jafnaðargeð og „sérstakan“ húmor.

Andlegur leiðtogi

 Omar er af ættum pashtun-fólksins, sem heldur sig í fjalllendi í suðurhluta Afganistans og einnig í Pakistan. Fjölskylda hans var fátæk. Hann fæddist árið 1960 í þorpinu Chah-i-Himmat í  Kandahar-héraði og gekk í skóla þar sem íslömsk fræði voru fyrirferðarmikil. 

Hann missti augað er hann barðist með hópi afganskra skæruliða gegn sovéska hernum á níunda áratugnum. Saga sem er lífsseig meðal talíbana segir að hann hafi skorið sært auga sitt sjálfur úr höfðinu. Aðrar heimildir herma að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús í Pakistan þar sem augað var fjarlægt.

Er herir Sovétmanna drógu sig til baka árið 1989 snéri Omar til heimahaganna og lagði fyrir sig bænahald og kennslu. Samstundis fór hann að laða að sér nemendur („taliban“ þýðir nemandi á tungu pashtoa) og skæruliða sem vildu berjast gegn yfirráðum hershöfðingjanna sem réðu ríkjum um nær allt landið.

Omar hafði fljótt bæði hernaðar- og trúarlegt vald yfir fylgismönnum sínum. Til marks um það er þegar hann í apríl árið 1996 birtist á svölum heilags húss í Kandahar, vafinn klæðum sem sögð voru hafa tilheyrt Múhameð spámanni.

Í september sama ár náðu talíbanar völdum í Kabúl og lét taka fyrrverandi forsetann, Najibullah, af lífi með hrottalegum hætti. 

Samband Omars og Osama bin Laden hófst er sá síðarnefndi kom til Afganistans í lok árs 1996. Síðar átti þetta samband eftir að verða til þess að stjórn talíbana var steypt af stóli. Þá hafði bin Laden, sem var Sádi-Arabi, verið vísað frá Súdan. 

Samband þeirra var svo innsiglað er Omar gekk að eiga elstu dóttur Bins Laden árið 1998. 

Samhliða því að Omar varð vinsælli og þekktari á heimaslóðum sínum jókst vanþóknun vesturveldanna á honum. Aðeins Pakistan, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin viðurkenndu ríkisstjórn talíbana í Afganistan. Í mars árið 2001 sprengdi stjórn Omars stór búddalíkneski í Bamiyan-fjöllum í loft upp. Það vakti gríðarlega reiði margra víða um heim. 

Hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum í september það ár og innrás Bandaríkjamanna í Afganistan í kjölfarið, bundu svo endi á stjórnartíð talíbana. 

Mullah Omar hefur verið á lista bandaríska utanríkisráðuneytisins um eftirlýsta …
Mullah Omar hefur verið á lista bandaríska utanríkisráðuneytisins um eftirlýsta glæpamenn árum saman.
Osama bin Laden og Mullah Omar voru vinir. Omar giftist …
Osama bin Laden og Mullah Omar voru vinir. Omar giftist dóttur bins Laden. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert