Gæti boðað til snemmbúinna kosninga

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segist neyðast til að boða til snemmbúinna þingkosninga ef uppreisnarmenn í hans eigin flokki, stjórnarflokknum Syriza, halda áfram að leggjast gegn samkomulagi við lánardrottna landsins um lánapakka til handa Grikkjum.

Samkomulagið felur í sér að lánardrottnar Grikklands veiti Grikkjum lán upp á 86 milljarða evra gegn því að grísk stjórnvöld komi á ýmsum umbótum í landinu.

Hluti þingflokks Syriza hefur lagst gegn öllum samningum við lánardrottna landsins og bent á að flokkurinn hafi lofað því fyrir kosningarnar í janúar síðastliðnum að binda enda á strangar aðhaldsaðgerðir í landinu.

Tsipras sagði við útvarpsstöðina Sto Kokkino í dag að hann væri beinlínis „neyddur“ til að boða til kosninga nema hann fengi meirihluta á þinginu. 

„Ég væri sá seinasti til að vilja kosningar, ef ég hefði öruggan þingmeirihluta til að ljúka verkinu áður en fjögurra ára kjörtímabilinu lýkur,“ sagði hann.

Tsipras þurfti að reiða sig á stuðning stjórnarandstöðuflokka til að samþykkja þau ströngu skilyrði sem lánardrottnarnir setja fyrir frekari lánveitingum. Yfir þrjátíu þingmenn Syriza greiddu atkvæði gegn skilyrðunum.

Hann sagðist enn fremur ætla að boða til sérstaks flokksþings um framtíð Syriza þegar viðræðunum við lánardrottnana lýkur, líklegast í byrjun septembermánaðar.

Hann sagði að hegðun sumra þingmanna flokksins væri afar undarleg. Þeir hefðu greitt atkvæði sitt gegn umbótatillögunum en þó sagst styðja ríkisstjórnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert