Lifði af í 32 klukkustundir á íshellu

Sergej Ananov.
Sergej Ananov. Mynd/Facebook

Rússneskur þyrluflugmaður slapp á ótrúlegan hátt lifandi frá hremmingunum sem hann lenti í þegar þyrlan hans fórst í Grænlandshafi á laugardaginn. 

Sergej Ananov var á leiðinni heim til Moskvu eftir að hafa flogið umhverfis hnöttinn á Robinson R22-þyrlunni sinni þegar þyrlan hans bilaði og brotlenti í íshafinu vestur af Grænlandi. Þyrlan fór strax að sökkva en Ananov tókst að komast í flotgalla og út í björgunarbát áður en þyrlan sökk niður á hafsbotninn.

Hann synti þá að íshellu í hafinu og tókst að komast upp á hana. Björgunarbátinn notaði hann sem skjól gegn vindinum en afar slæmt veður var þegar slysið varð. Nokkrum klukkustundum síðar heyrði hann í flugvél fyrir ofan sig og skaut hann þá upp neyðarblysum. Þykk þoka varð til þess að áhöfn flugvélarinnar varð ekki vör við hann og þurfti hann því áfram að hýrast á íshellunni. 

Biðin eftir aðstoð varð að lokum 32 klukkustundir. En áður en aðstoð barst þurfti hann að glíma við annað vandamál. Þrír ísbirnir ætluðu sér að heimsækja hann á íshelluna og einn þeirra fór alveg upp að Rússanum. Hann segist hafa hrætt þá í burtu með því að baða út höndunum og öskra. „Þeir hafa öruggleg aldrei séð mannveru í rauðum flotbúning veifa með höndunum. Ég hef litið út eins og djöfull í mannsmynd,“ segir Ananov í samtali við AP.

Kanadíska björgunarskipið Pierre Radisson hafði móttekið neyðarskilaboð frá þyrlunni áður en hún fórst og var skipið mætt á slysstaðinn um 25 klukkustundum síðar. Þá var þokan farin og hægt var að senda þyrlu til þess að bjarga Ananov. Hann heyrði að lokum hljóðið í þyrlunni og skaut þá upp síðasta björgunarblysinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert