Ungmenni sviku fé af Ríki íslams

Ein kvennanna í viðtali við Life News.
Ein kvennanna í viðtali við Life News. Skjáskot/Life News

Lögreglan í Téténíu hefur handtekið þrjár ungar konur sem sviku pening út úr hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam með því að segjast ætla að ganga til liðs við þau. Óskuðu þær eftir ferðastyrk til þess að komast til Sýrlands en skiluðu þær sér aldrei í flugið.

Samtökin hafa í langan tíma reynt að lokka ungmenni víðs vegar að úr heiminum til þess að koma til Sýrlands og taka þátt í stríðinu. Er ungmennunum meðal annars lofað fjármagni og oftast er haft samband við þau í gegnum netið.

Þannig var það einmitt í þessu tilfelli en konurnar þrjár komust í samband við útsendara hryðjuverkasamtakanna í gegnum netið með fölskum prófíl á samfélagsmiðlum. Sögðust þær hafa mikinn áhuga á að ganga til liðs við samtökin í Sýrlandi. Um leið og samtökin höfðu lagt inn á þær alls 3.300 Bandaríkjadollara eyddu þær prófílnum sínum og tóku út peningana. 

Rannsóknardeild lögreglunnar í Téténíu komst á snoðir um millifærslurnar. Lögreglan hafði þá sett af stað sérstakt átak til þess að koma í veg fyrir að ungmenni yrðu lokkuð til Sýrlands. 

Við yfirheyrslur sagðist ein konan hafa íhugað um tíma að þiggja boð samtakanna og ferðast til Sýrlands. Henni hafi hins vegar svo snúist hugur. „Ég þekki nokkra sem hafa farið þangað en ég veit ekki til þess að það hafi endað vel hjá neinum þeirra,“ sagði konan.

Lögreglan í Téténíu segist aldrei hafa séð fjársvik af þessu tagi áður. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi gerst í Téténíu en við höfum ekki langa reynslu af slíkum hryðjuverkasamtökum. Ég myndi samt ekki ráðleggja neinum að vera í samskiptum við hryðjuverkasamtök, sérstaklega ef ætlunin er að hafa af þeim fé,“ segir Valery Zolotaryov, fulltrúi rannsóknarlögreglunnar í landinu í samtali við Russian Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert