Árás í Gay Pride-göngu í Jerúsalem

Samkynhneigðir mæta fordómum víða. Þessi mynd var tekin í gleðigöngu …
Samkynhneigðir mæta fordómum víða. Þessi mynd var tekin í gleðigöngu í Venesúela. AFP

Lögregla hefur handtekið mann eftir árás í Gay Pride-göngu í Jerúsalem, en sex særðust í árásinni. Maðurinn er grunaður um að hafa stungið fólkið með hnífi, en BBC hefur eftir talsmanni lögreglu að um sé að ræða sama mann og stakk þrjá í göngunni árið 2005.

Maðurinn heitir Yishai Schlissel og er strangtrúaður gyðingur. Hann var dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir árásina 2005 en var sleppt úr fangelsi fyrir þremur vikum.

Áverkar tveggja særðu eru taldir alvarlegir.

Sjónarvottar sögðu ísraelska dagblaðinu Haaretz að árásarmaðurinn hefði komið aftan að göngufólki og öskrað á meðan hann lagði til þeirra með eggvopni. Hann var tæklaður niður af lögreglu.

Gangan hefur löngum vakið spennu milli strangrúaðara og annarra íbúa borgarinnar. Hundruðir lögreglumanna sinna eftirliti þegar gangan fer fram til að koma í veg fyrir að átök brjótist út. Strangrúaðir gyðingar hafa safnast saman í Mea Shearim til að mótmæla samkynhneigð.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert