Átta manna fjölskylda hálshöggvin

Lögreglan í Mexíkó.
Lögreglan í Mexíkó. AFP

Níu manns úr sömu fjölskyldu, þar af tveimur unglingum, var rænt í Mexíkó af grímuklæddum og vopnuðum mönnum. Lík átta þeirra fundust afhöfðuð nokkru síðar. 

Líkin fundust í kjölfar þess að níunda meðlimi fjölskyldunnar tókst að sleppa frá mannræningjunum sem höfðu fólkið í haldi í Chihuahua-héraði.

Í kjölfar mannránsins hófst umfangsmikil leit hersins á svæðinu. Líkin fundust svo í þessari viku. Fólkið var á aldrinum 15-42 ára. 

Fjölskyldan var í bíl er þeim var rænt af mönnum sem klæddir voru í fatnað í felulitum, líkt og hermenn, og með grímur fyrir andlitum sínum. Algengt er að meðlimir glæpagengja í Mexíkó klæðist slíkum fatnaði.

Lík þriggja manna fundust í vegkanti á miðvikudag. Einn þeirra var átján ára og tveir 25 ára. 

Lík hinna fundust á víð og dreif um héraðið. 

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að sumir sem tengjast fjölskyldunni segja hana hafa verið á leið út í skóg að höggva eldivið. Aðrir segja að hún hafi séð um plöntur í skóginum sem notaðar eru við framleiðslu fíkniefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert