Kynferðisbrotamáli sópað undir teppið

Byrlað var fyrir stúlkunni og hún missti meðvitund. Hún vaknaði …
Byrlað var fyrir stúlkunni og hún missti meðvitund. Hún vaknaði fjórum tímum seinna og kvartaði undan sárindum í kynfærunum. Seinna kom í ljós að hún hafði verið beitt ógeðfelldu ofbeldi. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa varið hálfum milljarði Bandaríkjadala í samninga við rússneskt þyrlufyrirtæki eftir að upp komst að starfsmaður í einni af þyrluáhöfnum fyrirtækisins í Austur-Kongó hefði byrlað fyrir ungri stúlku og beitt hana kynferðislegu ofbeldi.

Háttsettir embættismenn hjá SÞ íhuguðu að segja upp samningum við fyrirtækið UTair, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að atvikið, þar sem stúlkan var skilin eftir nakin og meðvitundarlaus í bækistöðvun þyrlusveitarinnar, endurspeglaði kúltúr kynferðislegrar misnotkunar innan fyrirtækisins.

Frá þessu segir Guardian og byggir á trúnaðargögnum sem lekið var til fjölmiðilsins.

Samkvæmt skjölunum safnaði innra eftirlit Sameinuðu þjóðanna sönnunargögnum sem m.a. sýndu fram á hvernig stúlkan hafði verið beitt ofbeldi með logandi sígarettum og mynduð liggjandi í jörðinni. Það var niðurstaða eftirlitsins að gerandinn væri yfirmaður bækistöðvar UTair í Kalemie í austurhluta Austur-Kongó.

Atvikið átti sér stað árið 2010.

Málið vakti „viðbjóð“ meðal yfirmanna hjá SÞ, sem veltu því fyrir sér að rifta samningum við UTair. Niðurstaðan varð hins vegar sú að heimila UTair að eiga áfram viðskipti við SÞ ef fyrirtækið uppfyllti það skilyrði að taka upp nýtt þjálfunarferli, undir eftirliti.

Enn þann dag í dag er UTair stærsti þjónustuaðili Sameinuðu þjóðanna á sviði loftflutninga. Síðan málið kom upp hafa nýir samningar verið gerðir og eldri endurnýjaðir um þyrluþjónustu í Líbanon, Sierra Leone, Súdan, Líberíu, Afganistan, Suður-Súdan og Sómalíu, svo eitthvað sé nefnt.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, hefur sagt að samtökin líði ekki kynferðislega misnotkun og hefur fyrirskipað rannsókn á máli franskra friðargæsluliða og nálgun SÞ varðandi kynferðisbrot. Hann mun nú þurfa að standa á máli sínu og útskýra hvernig UTair gat haldið samningum sínum eftir að uppvíst hafði orðið um hin hræðilegu brot gegn stúlkunni.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert