Talíbanar staðfesta andlát Mullah Omar

Mullah Omar árið 1993.
Mullah Omar árið 1993. Af Wikipedia

Talíbanar hafa staðfest fregnir af andláti leiðtogans Mullah Omar, en stjórnvöld í Afganistan tilkynntu um fráfall hans í gær. Í yfirlýsingu frá talíbönum og fjölskyldu Omar segir að andlát hans hafi borið að í kjölfar veikinda.

Í yfirlýsingunni kemur ekki fram hvenær hann dó en samkvæmt afgönskum stjórnvöldum varð það fyrir um tveimur árum, þegar  hann dvaldi í Pakistan. Í yfirlýsingu talíbana segir eingöngu að heilsu hans hafi hrakað síðustu tvær vikurnar.

Þar kemur einnig fram að efnt verði til þriggja daga helgihalda til að biðja fyrir sálu Mullah Omar. Hann hefur ekki sést opinberlega síðan Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan árið 2001.

Talsmaður öryggismála í Afganistan sagði í gær að Mullah Omar hefði dáið á sjúkrahúsi „undir dularfullum kringumstæðum“. Dauði hans þykir mikið áfall fyrir talíbana, sem stendur ógn af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam, en þau hafa verið í sókn í Afganistan.

Frétt mbl.is: Eineygður með sérstakan húmor

Frétt mbl.is: Helsti leiðtogi talíbana allur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert