Nánast fullvíst hvaðan brakið er

Nánast fullvíst þykir að brakið sem skolaði á land á frönsku eyjunni La Reunion í Indlandshafi sé úr malasísku þotunni, flugi MH370.

Brakið var sent til Frakklands til frekari rannsóknar en um tveggja metra langt stykki er að ræða. Þota Malaysia Airlines Boeing 777, hvarf án nokkurra skýringa á leiðinni frá Kuala Lumpur til Peking þann 8. mars í fyrra með 239 manns um borð.

„Við erum nánast sannfærðir um að brakið er úr MH370,“ segir Martin Dolan, yfirmaður samgöngustofu Ástralíu. Hann segir að lögun hlutarins sem fannst geti vart verið af annarri þotutegund en Boeing 777.

Dolan segist vonast til þess að þetta verði ljóst innan sólarhrings en margir sérfræðingar segja að brakið sé úr væng Boeing 777, svo kallaður flapsi,flaperon á ensku, og ef svo er þá geti vart verið um aðra vél að ræða en flug MH370.

Vænghlutanum skolaði á land á La Reunion og þar fundust einnig leifar af ferðatösku. Vænghlutinn var fluttur til borgarinnar Toulouse í sunnanverðu Frakklandi þar sem hann verður rannsakaður á vegum franskra flugmálayfirvalda.

Flugmálasérfræðingar sögðu að ekki væri víst að vænghlutinn væri úr malasísku þotunni. Hann gæti verið úr öðrum þotum sem hafa farist á svæðinu, m.a. suðurafrískri Boeing 747-þotu sem hrapaði nálægt eyjunni Máritíus árið 1987 þegar 159 manns fórust.

La Reunion er um það bil 4.000 kílómetra frá hafsvæðinu þar sem talið er líklegast að malasíska farþegaþotan hafi hrapað. Sérfræðingar í rannsóknum á hafstraumum á þessu svæði segja að vænghlutann hafi getað rekið þaðan til La Reunion.

Sextán mánaða leit að braki úr þotunni bar ekki árangur og engin lík hafa fundist. Allir sem voru í þotunni hafa þó verið úrskurðaðir látnir til að hægt verði að greiða ættingjum þeirra dánarbætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert