Veitir 100% vernd gegn ebólu

Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku felldi þúsundir manna.
Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku felldi þúsundir manna. AFP

Bóluefni gegn hinni banvænu veiru, ebólu, veitir fólki 100% vernd og gæti breytt með öllu meðferð sjúkdómsins í framtíðinni. Þetta hafa frumrannsóknir á bóluefninu leitt í ljós. 

Enn hafa engin bóluefni eða lyf gegn ebólu verið sett á markað. Umfangsmesti faraldur ebólu frá upphafi hófst í Gíneu í desember árið 2013. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að niðurstöðu rannsókna á bóluefninu, sem verða bráðlega birtar í Lancet, muni hafa gífurlegar breytingar í för með sér. Sérfræðingar segja niðurstöðurnar „stórmerkilegar.“

Bóluefnið sem svo vel hefur reynst heitir VSV-EBOV en þróun á því hófst í Kanada. Við gerð þess voru ebóluveiran og önnur hættulausari veira fléttaðar saman og ónæmiskerfið þannig þjálfað til að vinna á ebólu.

Vettvangsrannsókn var gerð í Gíneu. Þegar upp komst um smit voru vinir sjúklingsins, fjölskylda og nágrannar bólusett til að útbúa „verndarhring“. 100 sjúklingar voru greindir á rannsóknartímabilinu og af öllum þeim 2.014 einstaklingum sem voru bólusettir vegna þeirra fékk enginn ebólu.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert