Eltast við mannræningja á hafi úti

Fiskimarkaðurinn í Tælandi veltir um 5 milljörðum Bandaríkjadölum árlega. Glæpahringir …
Fiskimarkaðurinn í Tælandi veltir um 5 milljörðum Bandaríkjadölum árlega. Glæpahringir hafa hneppt marga í ánauð og látið vinna á sumum þessara báta og er talið að allavega þúsund manns sé haldið úti á sjó gegn eigin vilja. Myndin sýnir tælenska starfsmenn útgerðar, en tengist fréttinni ekki beint. AFP

Strandgæslan og innflytjendayfirvöld við Papúa Nýju-Gíneu eltast nú við flota yfir 30 fiskiskipa sem sigla undan strönd landsins, en áhafnir skipanna eru að mestu skipaðar fólki sem er haldið í þrældómi og ánauð.

Eru skipin gerð út frá Tælandi og eru mannréttindasamtök hrædd um að risavaxinn glæpahringur þaðan geri út yfir tvö hundruð skip í suðvestur Kyrrahafi með yfir þúsund áhafnarmeðlimi í þrældómi. Fiskurinn frá skipunum fer mest allur á markað í Tælandi þaðan sem hann er seldur áfram um heim allan. Yfirvöld hafa þegar náð að stoppa för eins skips og frelsað þá sem þar var haldið í ánauð. Breska blaðið The Guardian segir frá málinu.

Við eyjuna Ambon, sem er hluti af Indónesíu, er áætlað að um 240 skip stundi veiðar þar sem áhafnirnar eru í ánauð, en þau komust undan þegar starfsemi margra slíkra skipa var stöðvuð í mars á þessu ári. Voru þá um hundrað manns frelsaðir.

Í heildina hafa um 70 skip á undanförnum misserum verið stöðvuð vegna þessarar starfsemi, en þeir sem eru hneppir í ánauð eru flestir frá Tælandi, auk þess sem margir eru einnig frá nágrannaríkinu Burma.

Spilling á svæðinu hefur komið í veg fyrir að allar aðgerðir yfirvalda gagnvart glæpamönnunum hafi heppnast, en yfirmaður innflytjendamála í Indónesíu, sem fara með málið, segist bjartsýnn á aukinn árangur í baráttunni á næstunni.

Guardian segir að þeir sem hafi verið hnepptir í þrældóm hafi mátt þola líkamlegt og andlegt ofbeldi. Meðal þess sem yfirmenn á skipunum gerðu við þá var að lemja og sparka í þá, híða með eitri úr skötubroddi ef þeir kvörtuðu og láta þá vinna 20 til 22 klukkustundir á hverjum degi. Þá fengu þeir aðeins óhreint vatn að drekka og fengu ekkert greitt, eða í besta falli smápeninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert