Skyldmenni Bin Laden létust í flugslysinu

Skjáskot af vefsíðu Sky.

Fjórir létu lífið þegar flugvél sprakk eftir að hafa lent inni á bílastæði á Englandi í gær. Í samúðarskeyti sem sendiráð Sádí-Arabíu í London sendi frá sér segir að skyldmenni Osama Bin Ladens hafi verið meðal hinna látnu.

Sendiherra Sádí Arabíu „vottaði sonum Mohammed bin Laden og skyldmennum samúð sína vegna þessa alvarlega atburðar, þar sem flugvél með meðlimi fjölskyldunnar fórst við Blackbushe-flugvöll.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sendiráðinu.

Þrátt fyrir það hefur ekki verið hægt að staðfesta hverjir það voru sem létust í flugslysinu. Sendiráðið sagðist mundu aðstoða bresk yfirvöld við rannsókn málsins og við að koma jarðneskum leifum farþeganna til Sádí Arabíu til greftrunar.

Mohammad, faðir Osama, var stórtækur í byggingariðnaði og skyldi eftir sig fjölda barna þegar hann lést sjálfur í flugslysi árið 1967.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert