Leita enn lausnar gátunnar

Fimm dögum eftir að braki úr væng Boeing 777 þotu skolaði á landi á frönsku eyjunni La Reunion í Indlandshafi munu franskir og malasískir flugsérfræðingar hittast á fundi í París ásamt lögreglu og rannsóknardómara til þess að ákvarða um framhaldið á rannsókn á hvarfi flugs MH 370.

Í gær fannst eitthvað brak á eyjunni en það reyndist ekki vera úr flugvél líkt og vænst var í fyrstu.

Hluti vængsins sem rak á strönd La Reunion í síðustu viku er nú til rannsóknar hjá franska hernum í Toulouse þar sem sérfræðingar í flugsslysum eru að störfum. Von er á niðurstöðu þeirra á miðvikudag, eftir tvo daga.

Talið er að þá verði ljóst hvort um brak úr Boeing 77 þotu Malaysia Airlines, flugi MH370, sé að ræða. Þotan hvarf með dularfullum hætti á leið frá Kuala Lumpur til Peking þann 8. mars 2014 með 239 manns um borð. Vélin er sú eina af gerðinni Boeing 777 sem hefur horfið á hafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert