Fundu Picasso-verk í tollinum

Verkið Head of a young woman eftir Pablo Picasso
Verkið Head of a young woman eftir Pablo Picasso AFP

Tollverðir á frönsku eyjunni Korsíku lögðu hald á Picasso verk sem er metið á 25 milljónir evra á fimmtudag en flytja átti verkið, sem er álitið þjóðargersemi af spænskum yfirvöldum, til Sviss.

Um olíumálverk er að ræða og fannst það um borð í báti sem kom til hafnar á eyjunni. Í skjölum sem skipstjórinn var með í fórum sínum kom fram að ekki mætti flytja verkið úr landi á Spáni en verkið er í eigu Jamie Botin, þekkts bankamanns á Spáni en fjölskylda hans tengist Santanderbankanum allt aftur til ársins 1857.

Botin, sem er 79 ára gamall og fyrrverandi varaformaður stjórnar Santander, var ekki um borð í bátnum sem siglir undir breskum fána og er í breskri eigu.

Farið var fram á það að flytja mætti málverkið til Bretlands í desember 2012 en menningarmálaráðherra Spánar lagðist gegn því. Dómari tók undir það í ár og var það niðurstaða hans að verkið væri menningarverðmæti sem ekki mætti flytja úr landi.

Ljósmynd af Pablo Picasso
Ljósmynd af Pablo Picasso AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert