Rússar gera tilkall til stórs svæðis

Vladímir Pútin, forseti Rússlands.
Vladímir Pútin, forseti Rússlands. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað kröfu sína um yfirráð yfir 1,2 milljóna ferkílómetra svæði af norðurheimsskautssvæðinu. Þau sendu í dag Sameinuðu þjóðunum nýja greinargerð þar sem fram kemur að rannsóknir hafi sýnt fram á að Rússar eigi yfirráðarétt yfir þessu svæði.

Rússar gerðu tilkall til svipaðs stórs svæðis á þessum slóðum árið 2001, en þá var kröfu þeirra hafnað. Var þá bent á að rannsaka þyrfti svæðið betur áður en ákvörðun yrði tekin.

Öll önnur ríki á þessum slóðum, Noregur, Danmörk, Kanada og Bandaríkin, hafa hafnað kröfu rússneskra stjórnvalda. Öll ríkin fimm hafa gert tilkall til sama svæðis og nýtingarréttarins sem fylgir því.

Kröfur Rússar ná meðal annars yfir Mendeljev- og Lomonosov-hrygginn í Norður-Íshafi. Þarf sérstök nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna nú að taka afstöðu til þess hvort Rússar eigi rétt á að stækka lögsögu sína.

Samkeppnin um olíu- og gasauðlindirnar sem finna má á þessum slóðum hefur aukist verulega á undanförnum árum, en bráðnun hafíss hefur auðveldað aðgengi manna að þessum auðlindum og skapað ný tækifæri.

Norðmenn urðu fyrstir til að fá kröfu sína um yfirráð yfir hluta Norðuskautssvæðisins staðfesta fyrir sex árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert