Bandaríkjamaður handtekinn vegna morðrannsóknar

Loftmynd af Bali
Loftmynd af Bali AFP

Bandarískur fyrrverandi lögreglumaður hefur verið handtekinn á indónesísku eyjunni Bali í tengslum við morð á þungaðri unnustu hans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var Vontrey Clark handtekinn á föstudag eftir að Interpol gaf út handtökuskipun (rauða) á hendur honum að beiðni bandarísku alríkislögreglunnar.

Amhar Azeth, sem stýrir Interpol í Indónesíu, segir að Clark hafi verið handtekinn á Bali en hann sé eftirlýstur fyrir morð.

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla var Clark áður lögregluþjónn í Austin. Hann liggur undir grun um að tengjast morði á unnustu sinni, Samönthu Dean, ráðgjafa hjá lögreglunni, í febrúar. Hann hefur ekki verið ákærður. 

Lík Dean fannst á bak við auða verslunarmiðstöð í Austin 4. febrúar sl. Hún hafði verið skotin þrisvar í höfuðið. 

Talsmaður lögreglunnar á Bali segir að Clark hafi komið til Jakarta 18. júlí en hann var handtekinn á hóteli í bænum Kuta. Flogið verður með hann til Bandaríkjanna 13. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert