Fullkomin tortíming

Kolaðir líkamar flutu á ísöltu vatninu sem rann um Hiroshima fyrir 70 árum, eftir að hin áður líflega borg varð fyrir fyrstu kjarnorkuárás sögunnar. Lyktin af brenndu holdi fyllti loftið er fjöldi alvarlega slasaðra íbúa freistaði þess að leita skjóls frá eldhafinu í ánum. Hundruðir urðu undir í örvæntingunni og komu aldrei upp úr vatninu.

„Það kom hvítt, silfrað leiftur,“ segir Sunao Tsuboi, 90 ára, um augnablikið þegar Bandaríkjamenn beittu gjöreyðileggingarvopni sínu. „Ég veit ekki af hverju ég komst af og lifði svo lengi. Því meira sem ég hugsa um það, því sársaukafyllra er að rifja það upp,“ segir hann.

Þrátt fyrir að sjö áratugir séu liðnir frá árásinni eru sýnileg og ósýnileg ör enn til staðar.

Gríðarstórt ský

Klukkan 8.15 hinn 6. ágúst 1945, varpaði B-29 sprengjuvél að nafni Enola Gay „Little Boy“; úransprengju hvers eyðileggingarmáttur jafngilti 16 þúsund tonnum af TNT. Aðeins 43 sekúndum seinna, þegar sprengjan var í um 600 metra fjarlægð frá jörðu, sprakk hún og myndaði eldkúlu, milljón gráðu heita.

Nærri allt í kring brann til ösku og 4.000 gráðu eldveggur skall á jörðinni. Byggingar úr steini stóðu eftir en allt og allir nálægir hurfu í eldhafi. Höggbylgju sem náði 1,5 km/sekúndu hraða lagði frá miðju sprengingarinnar og bar með sér allt lauslegt. Aflið var nægilegt til að rífa limi af líkömum.

Loftþrýstingur féll og allt umhverfis marðist niður, en gríðarstórt sveppalaga ský steig til himns og náði 16 kílómetra hæð yfir borginni.

Talið er að um 140.000 manns hafi látið lífið í árásinni, þar með taldir þeir sem lifðu sprenginguna en dóu skömmu seinna vegna geislunar.

Tsuboi, sem þá var námsmaður, var staddur um 1,2 kílómetra frá miðju sprengingarinnar og missti bókstaflega fótanna vegna höggsins og hitans. Þegar hann gat loks staðið á fætur héngu fötin í henglum af brenndum líkama hans, æðar úr opnum sárum og hann hafði misst hluta eyranna.

Tsuboi man eftir að hafa séð hvernig hægra augað hékk úr ungri stúlku. Þá kom hann einnig auga á konu sem reyndi árangurslaust að koma í veg fyrir að iður sín féllu út um gat á bolnum.

„Það voru lík alls staðar,“ segir Tsuboi. „Sum útlimalaus, öll koluð. Ég sagði við sjálfan mig: Eru þetta manneskjur?“

Margir létust af sárum sínum klukkustundum og dögum seinna. Lágu þar sem þeir féllu, örvæntingafullir eftir hjálp sem aldrei kom, eða e.t.v. aðeins dropa að drekka.

Breytt líf

Þeir sem lifðu áttu eftir að upplifa geislunarveiki. Það blæddi úr tanngómnum og fólk missti tennur og hár. Það greindist með krabbamein og börn komu í heiminn langt fyrir tímann. Vansköpuð börn og skyndileg dauðsföll voru einnig afleiðingar árásarinnar.

Þegar fregnir bárust af hinum óþekkta sjúkdóm voru eftirlifendur útilokaðir frá samfélaginu þar sem fólk óttaðist smit. Í mörg ár var erfitt fyrir þá að fá vinnu og stofna fjölskyldu. Enn þann dag í dag forðast sumir að tala um reynslu sína af ótta við mismunun.

Þeir eru kallaðir hibakusha; þeir sem hafa lifað kjarnorkuárás.

Móðir Kazumi Matsui, borgarstjóra Hiroshima, lifði hinn hræðilega atburð. Hann hefur aðeins nýverið byrjað að tala um áhrif sprengingarinnar á líf sitt. „Ég þekki það persónulega hvernig ein sprengja getur breytt lífi fjölda fólks,“ segir hann.

Þremur dögum eftir að Bandaríkjamenn réðust gegn Hiroshima, vörpuðu þeir plútónsprengju á hafnarborgina Nagasaki. Um 74.000 manns létust. Árásirnar tvær voru rothöggið í stríðinu gegn Japan, sem lýstu uppgjöf 15. ágúst 1945. Það markaði enda seinni heimstyrjaldarinnar.

Stuðningsmenn árásanna vilja meina að jafnvel þótt þær hafi kostað fjölda fólks lífið, hafi fleirum verið bjargað, þar sem frekari stríðsrekstur og jafnvel innrás hefðu haft mun meira mannfall í för með sér.

Masafumi Takubo, kjarnorkusérfræðingur, segir þær hins vegar haft forvitnilega hliðarverkun; þær hafi valdið því að margir Japanir endurrituðu söguna og settu sig í hlutverk fórnarlambsins.

Heimur án kjarnorku?

Stjórnmálaleiðtogar í Hiroshima og Nagasaki hafa löngum barist fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi. Frank von Hippel, sérfræðingur við Princeton University, segir að vopnin hafi öðlast bannhelgi í kjölfar árásanna, sem hafi í raun verið heimsbyggðinni til bjargar.

„Við höfum ferðast um langan veg, að ég tel. Við megum ekki gefast upp á afvopnun. Hættan er of mikil,“ segir von Hippel, sem eitt sinn starfaði í Hvíta húsinu.

„Það hefði aldrei átt að varpa atómsprengjunni, hún hefði aldrei átt að verða til,“ segir Keiko Ogura, sem var átta ára þegar hann upplifði áhrif sprengingarinnar í Hiroshima.

Hvað Tsuboi varðar vonast hann til þess að leiðtogar heims heimsæki Hiroshima til að heyra hvernig það var að verða undir „sveppaskýinu“. Hann biður ekki um afsökunarbeiðni, en vill tryggja að sagan endurtaki sig ekki.

„Við megum aldrei gleyma,“ segir hann.

Þessi mynd var tekin af bandaríska hernum þegar sprengjunni hafði …
Þessi mynd var tekin af bandaríska hernum þegar sprengjunni hafði verið varpað á Hiroshima. AFP
Borgin þremur mánuðum eftir árásina.
Borgin þremur mánuðum eftir árásina. AFP
Atomic Bomb Dome minnivarðinn í dag. Byggingin sést einnig á …
Atomic Bomb Dome minnivarðinn í dag. Byggingin sést einnig á myndinni fyrir ofan, sem sýnir borgina eftir árásina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert