Hljóp heilt maraþon án túrtappa

Hér má sjá Gandhi stuttu eftir að hún kom í …
Hér má sjá Gandhi stuttu eftir að hún kom í mark. Af heimasíðu Kiran Gandhi

Ung kona ákvað fyrr á árinu að taka þátt í London maraþoninu á blæðingum en án túrtappa eða dömubindis. Konan heitir Kiran Gandhi og hefur hún spilað á trommur með söngkonunni M.I.A. og hljómsveitinni Thievery Corporation. Gandhi sagðist hafa ákveðið að nota ekki túrtappa til þess að skapa umræðu um konur sem ekki hafa aðgang að túrtöppum og dömubindum og einnig til þess að hvetja konur til þess að skammast sín ekki fyrir það að vera á blæðingum.

Maraþonið fór fram í apríl en á dögunum myndaðist umræða um ákvörðun Gandhi. Til að mynda hafa fjölmargir notendur Twitter tjáð sig um Gandhi og líta sumir á ákvörðun hennar sem byltingarkennda á meðan aðrir segja að hún hafi ekki þjónað neinum tilgangi þegar það kemur að réttindabaráttu kvenna.

„Ég hljóp allt maraþonið með tíðarblóð rennandi niður lærin mín,“ skrifaði hin 26 ára gamla Gandhi á heimasíðu sína í apríl.

Gandhi útskrifaðist úr viðskiptadeild Harvard háskóla og hefur eins og fyrr kom fram ferðast um heiminn sem trommuleikari.
Á heimasíðuna sína skrifaði Gandhi að hún hefði byrjað á blæðingum kvöldið fyrir hlaupið og ákvað að það yrði óþægilegt að hlaupa með túrtappa. Það var þó ekki eina ástæðan fyrir ákvörðun Gandhi.

„Ég hljóp með blóð lekandi niður læri mín fyrir systur mínar sem hafa ekki aðgang að túrtöppum, og systur sem þrátt fyrir verki og sársauka, fela blæðingar og láta eins og þær séu ekki til. Ég hljóp til þess að segja, þetta er til og við sigrumst á því á hverjum degi.“

Gandhi hljóp maraþonið á fjórum klukkustundum, 49 mínútum og ellefu sekúndum. 

Gandhi fagnaði við markið.
Gandhi fagnaði við markið. Af heimasíðu Kiran Gandhi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert