Brak fundið á Maldíveyjum?

Leit stendur yfir að braki á Reunion.
Leit stendur yfir að braki á Reunion. AFP

Yfirvöld í Malasíu hafa tilkynnt að þau hyggist senda teymi sérfræðinga til Maldíveyja til að rannsaka hvort rétt sé að brak úr vélinni í flugi MH370 hafi skolað þar að landi. Myndir sem birtar hafa verið í fjölmiðlum á eyjunum sýna margra smáa hluti sem fundust á hringrifi.

Liow Tiong Lai, samgönguráðherra Malasíu, segir of snemmt að segja til um hvort hlutirnir eru úr vélinni í flugi MH370, sem hvarf í mars í fyrra á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking. Ekki er langt um liðið frá því að brak úr vélinni fannst á eyjunni Reunion í Indlandshafi.

Sérfræðingar hafa þegar lýst yfir efasemdum varðandi fundinn á Maldíveyjum og skipstjóri pramma sem sökk í febrúar sl. hefur stigið fram og sagt að hlutirnir á myndunum líkist farminum sem pramminn bar innanborðs.

Frönsk yfirvöld eru enn við leit að braki umhverfis Reunion og þá standa rannsóknir enn yfir á vænghlutanum sem fannst á eyjunni í júlí. Fundur hans þykir staðfesta að örlög vélarinnar hafi ráðist yfir suðurhluta Indlandshafs.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert