Misjöfn viðbrögð við ákvörðun Amnesty

Samþykkt mannúðarsamtakanna Amnesty International um að afglæpavæða vændi hefur fengið misjöfn viðbrögð bæði hér á landi sem og á hinum Norðurlöndunum.

Meðal annas reyndi sendinefnd Svíþjóðardeildar Amnesty að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna en að sögn Önnu Lindenfors, framkvæmdastjóra Amensty í Svíþjóð, þá eru samtökin á móti kröfunni um að afglæpavæðingu vændis af hvaða tagi sem er. Skiptir þar ekki máli hvort um vændiskaup sé að ræða eða þeirra sem reka vændisstarfssemi.

Um 500 hafa sagt sig úr í Amnesty í Svíþjóð

Öllum aðildarríkjum Amnesty International er í sjálfsvald sett hvort þau reyni að hvetja til þess að landslögum viðkomandi ríkis verði breytt í samræmi við tillögu Amnesty International. Þrátt fyrir að Amnesty í Svíþjóð ætli ekki að styðja tillöguna þá hafa fjölmargir sagt sig úr samtökunum þar. Um 500 manns höfðu sagt sig úr samtökunum í Svíþjóð í gær. Samtökin segja að alls séu um 100 þúsund félagar í Amnesty í Svíþjóð og því 500 lítið brot en þrátt fyrir það veki úrsögn þeirra mikil vonbrigði því aðeins sé um eitt af mörgum málefnum samtakanna um að ræða.

Ekki lausnin að gera konurnar að glæpamönnum

Í Danmörku eru skiptar skoðanir um samþykkt Amnesty International en Amnesty í Danmörku studdi tillöguna við atkvæðagreiðsluna á þriðjudag.

Talskona Amnesty í Danmörku, Trine Christensen, segir í tilkynningu að rannsóknir samtakanna sýni að í þeim löndum þar sem vændi er bannað séu meiri líkur á að vændisstarfsmenn verði fyrir ofbeldi og árásum. Þeir leiti síður til lögreglunnar og nýti sér ekki heilbrigðisþjónustu af ótta við handtökur.

Hún segir að þau hjá Amnesty í Danmörku viti að einhverjar konur séu þvingaðar í vændi meðal annars vegna mismunar, fátæktar eða aðstæðna sem veita þeim enga aðra möguleika. En að Amnesty trúi því ekki að lausnin sé að gera þessar konur að glæpamönnum.

Bæði er sala og kaup á vændi lögleg í Danmörku og að sögn Christensen mun Amnesty kanna það hjá stjórnvöldum þar í landi að vændislögin verði endurskoðuð meðal annars ákvæði um að koma í veg fyrir að aðrir hagnist á vændinu, þar á meðal þeir sem reka vændishús.

Sósí­al­iski þjóðarflokk­ur­inn og Jafnaðarmannaflokkurinn vilja ekki gera breytingar á lögunum en sá fyrrnefndi styður að sænska leiðin verði farin, það er að það sé ólöglegt að kaupa vændi en ekki lögbrot að selja sig. Flokkurinn gagnrýnir Amnesty að styðja afglæpavæðingu vændis.

Venstre er mótfallinn breytingum en Íhaldsflokkurinn og Samtök frjálslyndra styðja það að slakað verði á vændislögunum

Vændi er ekki vinna heldur kynferðislegt arðrán

Noregsdeild Amnesty International reyndi að fá Amnesty International til þess að hætta við tillöguna en talskona Amnesty í Noregi, Trine Torp, segir að með þessu sé Amnesty að svíkja réttindabaráttu kvenna út um allan heim. Hún segir að með þessu líti Amnesty svo á að vændi sé eðlilegt að vinna sem margar konur sem vilji starfa við. Vændi er ekki vinna það er kynferðislegt arðrán, segir Torp.

Samþykkt Amnesty International hefur verið harðlega fordæmd í Noregi. John Peder Egenæs, framkvæmdastjóri Amnesty í Noregi segir að þrátt fyrir ákvörðun samtakanna þá standi Noregsdeildin fast við bakið á alþjóðasamtökunum.

Efn­is­lega hafa sam­tök­in því nú ákveðið að beita sér fyr­ir því að ríki heims­ins aflétti refs­ing­um af iðju vænd­is­fólks, þar sem ekki er um að ræða fórn­ar­lömb man­sals, börn eða fórn­ar­lömb annarr­ar nauðung­ar.

Íslands­deild Am­nesty sat hjá í at­kvæðagreiðslunni og studdi til­lög­una ekki. Ef til­laga Íslands­deild­ar­inn­ar hefði verið samþykkt, þá hefði Am­nesty beitt sér fyr­ir því að ekki yrði lögð refs­ing við því að selja vændi. Hins veg­ar hefði áfram verið refsi­vert að kaupa vændi og út­vega hús­næði fyr­ir slíka starf­semi.

Í til­lög­unni seg­ir að ein­stak­ling­ar í kyn­lífsiðnaði séu mik­ill jaðar­hóp­ur sem í flest­um til­vik­um eigi á hættu að verða fyr­ir mis­mun­un, of­beldi og mis­beit­ingu. Í frétt á vef Am­nesty seg­ir að með álykt­un­inni sé mælt með því að þróuð verði ný stefna sam­tak­anna sem kveði á um að all­ir ein­stak­ling­ar í kyn­lífsiðnaði njóti fullra og jafnr­ar vernd­ar gegn of­beldi, mis­notk­un og man­sali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert