Vill uppljóstra um skattleysi fyrirtækja

Forsvarsmenn tæknirisans Google hafa setið undir harðri gagnrýni vegna skattamála …
Forsvarsmenn tæknirisans Google hafa setið undir harðri gagnrýni vegna skattamála fyrirtækisins. AFP

Sam Dastyari, formaður ástralskrar þingnefndar sem hefur rannsakað skattamál alþjóðlegra fyrirtækja, vill að upplýst verði opinberlega um hvaða fyrirtæki það eru sem bókfæri hagnað sinn í skattaskjólum til að forðast að greiða skatta í Ástralíu.

Nefndin mun birta skýrslu sína um málið á morgun. Rannsóknin hefur beinst að mörgum af stærstu fyrirtækjum heims í til að mynda tæknigeiranum, lyfjaframleiðslu og námuvinnslu en þingnefndin hefur fengið stjórnendur fjölmargra fyrirtækja á sinn fund.

Skattamál alþjóðlegra fyrirtækja hefur verið heitt umræðuefni í Ástralíu að undanförnu, eins og reyndar víða annars staðar, og hafa margir krafist svara við því af hverju svona mörg fyrirtæki komi sér undan skattgreiðslum með því að bókfæra hagnað sinn í skattaskjólum.

Dastyari sagði við fréttamenn í morgun að þau fyrirtæki sem kæmust undan því að greiða skatt í Ástralíu þyrftu að réttlæta þá ákvörðun sína á opinberum vettvangi.

Þingnefndin mun kalla eftir því að áströlsk skattayfirvöld fái heimild til þess að greina frá þeim sáttum sem fyrirtæki hafa gert um skattasniðgöngu, að sögn dagblaðsins Sydney Morning Herald.

Dastyari sagði að þeim mun meira sem yrði afhjúpað um hátterni fyrirtækjanna, þeim mun betri yrði stefna stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert