Loftárásir stjórnarhersins stríðsglæpur

Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, fordæmdi í dag loftárásir sýrlenska stjórnarhersins á bæinn Douma um helgina og sagði þær „óviðunandi“.

Næstum því hundrað manns féllu í árásunum sem gerðar voru á markað í bænum, sem er á valdi uppreisnarmanna, skammt frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands.

„Sprengjur stjórnarhersins í gær eru eyðileggjandi,“ sagði de Mistura. Það væri óviðunandi undir öllum kringumstæðum að gera loftárásir á fjölmennan markað og myrða með þeim hætti næstum hundrað óbreytta borgara.

Loftárásirnar í gær eru með þeim blóðugustu sem hafa verið gerðar í borgarastyrjöld landsins á seinustu fjórum árum.

De Mistura sagði að árásirnar undirstrikuðu þörfina á því að viðræður héldu áfram á milli deiluaðila um að binda endi á styrjöldina. Það væri engin lausn að grípa til vopna, eins og reynslan hefði sýnt. Yfir 240 þúsund manns hafa fallið í átökum í landinu undanfarin ár. 

Hann lagði til í seinasta mánuði að friðarviðræður yrðu aftur teknar upp á milli stríðandi fylkinga í landinu. Viðræðurnar höfðu áður farið út um þúfur árin 2012 og 2014. De Mistura hefur sagt öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að stofnuninni væri skylt að reyna að leita lausna á deilunni.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa gagnrýnt loftárásir sýrlenska stjórnarhersins harðlega og sagt þær jafngilda stríðsglæp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert