Funda í deilu Suður- og Norður-Kóreu í dag

Suður-kóreskir lögregluþjónar standa við inngang neðanjarðarbyrgis við landamæraþorpið Yeoncheon.
Suður-kóreskir lögregluþjónar standa við inngang neðanjarðarbyrgis við landamæraþorpið Yeoncheon. AFP

Hátt settir embættismenn og stjórnmálamenn í Suður- og Norður-Kóreu hyggjast funda í dag í deilu landanna sem hófst þegar tveir S-kóreskir hermenn særðust illa vegna jarðsprengju sem sprakk á svokölluðu hlutlausu svæði á landamærum ríkjanna tveggja.

Fundurinn fer fram í landamæraþorpinu Panmunjom og greinir BBC frá því að fulltrúar Suður-Kóreu á fundinum verða þeir Kim Kwanjin, ráðgjafi í þjóðaröryggismálum, og Hong Yong-po, ráðherra sameiningarmála. Fulltrúar N-Kóreu á fundinum verða þeir Kim Yong-gon og Hwang Pyong-so, en sá síðarnefndi er talinn næstráðandi landsins af mörgum skýrendum.

Hermenn landanna tveggja skiptust á skotum á fimmtudag við landamærin og fór her N-Kóreu í viðbragðsstöðu í framhaldinu. Norður-Kórea hefur krafist þess að Suður-Kórea slökkvi á hátölurum við landamærin, en í þeim hefur hljómað fréttaflutningur, veðurspár og tónlist upp á síðkastið. 

Stórskotalið hers N-Kóreu skaut á hátalarana og hefur Suður-Kórea flutt nærri fjögur þúsund íbúa frá svæðum við landamærin og gefið skilaboð um að landið ætli að svara N-Kóreu í sömu mynt.

Frétt breska ríkisútvarpsins um málið

Suður-kóreskir hermenn voru fluttir að landamærum Norður-Kóreu í morgun.
Suður-kóreskir hermenn voru fluttir að landamærum Norður-Kóreu í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert