Bókaskrif Cosbys um ást og hjónaband

Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 1989. Á kápunni …
Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 1989. Á kápunni er lýsingin „Spaugsami spekingurinn ræðir í fullri einlægni við okkur um vandamál tilhugalífsins og ævilangrar sambúðar.“

Árið 1989 kom út bókin Ástin og hjónabandið þar sem umfjöllunarefnið var vandamál tilhugalífsins og ævilangrar sambúðar, en höfundurinn ætlaði að ræða um það í fullri einlægni við lesendur. Þessi höfundur hefur undanfarin misseri verið talsvert í umræðunni, en það hefur þó ekki verið af góðu einu og síður en svo vegna aðstoðar við fyrrgreind vandamál. Höfundurinn er enginn annar en sjónvarpsstjarnan Bill Cosby, en hann hefur upp á síðkastið verið mikið í kastljósinu vegna ásakana fjölda kvenna um að hann hafi misnotað þær kynferðislega og jafnvel borgað þeim seinna til að segja ekki frá málunum eftir á.

Í bókaumfjöllun í Morgunblaðinu frá árinu 1989 er ekki farið mörgum orðum um þessa bók. Það er þó eitthvað óþægilegt við síðustu málsgreinina í ljósi þeirra atburða sem hafa komið fram í máli yfir 30 kvenna sem hafa stigið fram og sakað hann um ofbeldi gegn sér. „Bill Cosby er höfundur bókarinnar Ástin og hjónabandið, sem Fjölvi gefur út. Þetta er önnur bók Cosbys sem kemur út á íslenzku og öllu gamni hans fylgir alvara.“ 

Þetta var þó ekki eina bók Cosbys, en í lok níunda áratugarins skrifaði hann þrjár bækur, en það voru „Föðurhlutverkið“,  „Tíminn flýgur“ og fyrrgreinda bókin um ástina og hjónabandið.

Strákar urðu að æfa ofbeldi til að verða að mönnum

Fyrr á þessu ári tók bandaríska blaðið Washington post saman nokkrar tilvitnanir úr þessum bókum sem blaðið sagði óþægilega lesningu í ljósi umfjöllunarinnar um kynferðisafbrota hans.

Í Ástin og hjónabandið segir Cosby meðal annars frá því þegar hann var ungur strákur hafi hann meðal annars látið stelpur finna fyrir sér á fótboltavellinum og ýtt þeim í jörðina, enda væri það „rétti staðurinn fyrir veikari hluta mannkynsins.“ Fylgdi þessu sú skýring að stelpur þyrftu einfaldlega að skilja að strákar sætu ekki hljóðlátir á gólfinu með dúkkur, heldur „æfðu sig í ofbeldi sem væri nauðsynlegt svo þeir yrðu að mönnum.“

Handfjatlaði stelpur eins og melónur

Þá kemur Cosby einnig inn á menntaskólaárin og menntaskólapartíin. „Það var í kjöllurunum sem ég reyndi að handfjatla stelpurnar, eins og þær væru melónur, til að sjá hver þeirra væri fullþroskuð og væri til í eitthvað með mér. Stundum náði ég að plata eina þeirra út í bíl með mér í smá kossaflens og þreifingar. Flestar stelpnanna sem ég náði að plata í burtu sátu í bílnum eins og styttur og vonuðu að þetta augnablik myndi líða og þær gætu haldið áfram með líf sitt.“

Fleiri tilvitnanir í bókina má finna hér á vefsíðu Washington post og íslenska útgáfan virðist vera fáanleg á vefsíðu Netbókabúðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert