„Hagamaðurinn“ barinn með golfkylfu

Niklas Lindgren
Niklas Lindgren Úr Morgunblaðinu

 Sænskir miðlar greina frá því að þekktur raðnauðgari hafi leitað á spítala á laugardag eftir líkamsárás.

Niklas Lindgren, betur þekktur sem Hagamaðurinn, var nýlega sleppt úr fangelsi og hann sendur aftur í borgina þar sem hann framdi glæpi sína við lítinn fögnuð íbúa. Þrír aðilar réðust á hann utan við íbúð þar sem hann hefur dvalist í minna en viku. Árásarmennirnir eru ófundnir.

„Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær,“ sagði nágranni Lindgren í samtali við Aftonbladet. „En maður myndi ekki halda að það myndi gerast um miðjan dag beint fyrir utan útidyrahurðina.“

Samkvæmt lögreglu var fórnarlamb árásarinnar barinn í höfuðið með golfkylfu en lögregla hefur ekki staðfest að um Lindgren hafi verið að ræða. Lögregla hefur kylfuna til rannsóknar og mun yfirheyra vitni sem og fórnarlamb árásarinnar. til að ákvarða hvort viðkomandi þurfi lögregluvernd.

Lindgren var fangelsaður árið 2006 fyrir að nauðga konum í Haga-hverfinu í borginni Umeå á árunum 1999 til 2005. Í tveimur tilfellana reyndi hann einnig að myrða fórnarlömb sín. Hann hlaut 14 ára dóm en sat aðeins í fangelsi í níu ár.

Honum ber skylda til að mæta á vikulega meðferðarfundi fyrir kynferðisglæpamenn og eiga regluleg samskipti við skilorðsfulltrúann sinn.

Fréttir mbl.is:

Hagamaðurinn látinn laus

Hagamaðurinn dæmdur í 14 ára fangelsi

Meintur raðnauðgari í Svíþjóð ákærður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert