Mesta lækkunin í Grikklandi

AFP

Hlutabréfamarkaðir hafa fallið um allan heim í dag en lækkunin hefur verið einna mest í Grikklandi. Hlutabréfavísitalan ATHEX í Aþenu lækkaði um 10,54% í dag og hefur hún ekki verið lægri í þrjú ár. Mest féll hún um 11,3% í dag, aðeins hálftíma fyrir lokun markaða.

Auk verðfallsins í Kína í nótt hefur pólitísk óvissa vegna fyrirhugaðra kosninga í Grikklandi haft áhrif á hlutabréfamarkaðinn í landinu.

Stjórnmál hafa haft mikil áhrif á verðþróunina á grískum hlutabréfamarkaði undanfarna mánuði.

Eins og kunnugt er tilkynnti Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um afsögn sína í seinustu viku og boðaði um leið til snemmbúinna þingkosninga sem eiga að fara fram í haust.

Hlutabréf í grískum bönkum féllu um 22% í verði að meðaltali í dag. Gengi hlutabréfa í fjórum stærstu bönkum landsins féll um 21,7-26,5% í viðskiptum dagsins.

Þá féllu einnig hlutabréf í ýmsum byggingafyrirtækjum, fjarskiptarisanum OTE og rafmagnsfélaginu PPC um tveggja stafa tölu.

Loka þurfti fyrir viðskipti á hlutabréfamarkaðinum í Aþenu í sex vikur í sumar eftir að gjaldeyrishöft voru sett á í landinu. Þegar markaðurinn var opnaður þann 3. ágúst, eftir að samningar höfðu náðst á milli grískra stjórnvalda og lánardrottna landsins, hríðféll aðalhlutabréfavísitala landsins um meira en 22%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert