Samkynhneigð jafngildir dauða

Á sama tíma og tugþúsundir safnast saman í Reykjavík til …
Á sama tíma og tugþúsundir safnast saman í Reykjavík til að fagna með hinsegin fólki, eiga samkynhneigðir á hættu að vera myrtir víða annars staðar. Á myndinni sjást samkynhneigðir Ísraelar fara hinsegingöngu í Jerúsalem 14. ágúst sl. undir vökulu eftirliti öryggissveita. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hlýddi í dag á frásagnir samkynhneigðra einstaklinga frá Sýrlandi og Írak um líf þeirra undir ægivaldi hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam. Þetta var í fyrsta sinn sem málefni hinsegin fólks var til umfjöllunar hjá ráðinu.

Subhi Nahas sagði viðstöddum frá því hvernig samkynhneigðum einstaklingum í heimabæ hans Idlib í Sýrlandi hefði verið fleygt fram af húsþökum og grýttir undir hvatningarópum íbúa, þeirra á meðal barna.

„Samkynhneigðir eru eltir uppi og drepnir undir Ríki íslam,“ sagði Nahas, sem flúði og starfar nú fyrir flóttamannasamtök í Bandaríkjunum.

Hann sagði að samkynhneigðir í Idlib hefðu verið ofsóttir af sýrlenskum stjórnvöldum, af hryðjuverkasamtökunum Al-Nusra Front eftir að þau tóku borgina yfir 2012 og af liðsmönnum Ríki íslam, sem náðu Idlib á sitt vald í fyrra. Al-Nusra Front eru tengd Al-Kaída.

„Við aftökur fögnuðu hundruð bæjarbúa, þeirra á meðal börn, líkt og um brúðkaup væri að ræða,“ sagði Nahas.

Adnan, íraskur ríkisborgari, sem bar vitni gegnum síma frá ótilgreindum stað í Mið-Austurlöndum, sagði að hann hefði orðið fyrir barðinu á íröskum öryggissveitum áður en hann sætti ofsóknum af völdum liðsmanna Ríkis íslam. Hann sagðist óttast að fjölskylda sín myndi uppljóstra um sig við samtökin.

Bardagamenn Ríkis íslam „eru atvinnumenn þegar kemur að því að hafa uppi á samkynhneigðum. Þeir elta þá uppi einn af einum. Þegar þeir ná fólki fara þeir gegnum síma þess og tengiliði og Facebook-vini,“ sagði Adnan, en það er ekki hans rétta nafn.

„Þeir eru að reyna að elta uppi hvern einasta samkynhneigða mann. Og þetta er eins og dómínó; ef þeir ná einum falla hinir líka,“ sagði hann.

Liðsmenn Ríkis íslam hafa lýst a.m.k. 30 aftökum á hendur sér þar sem viðkomandi var gert að sök að hafa stundað „sódómsku“, sagði Jessica Stein, framkvæmdastjóri International Gay and Lesbian Rights Commision.

Þá hafa samtökin birt a.m.k. sjö mynbönd eða myndir á netinu, þar sem morðin eru auglýst.

Sögulegur fundur

Fundur Öryggisráðsins var skipulagður af Bandaríkjunum og Síle, en Samantha Power, sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, sagði hann til marks um að málefni hinsegin fólks væru nú hluti meginstefnunnar innan SÞ.

Power sagði fundinn sögulegan og löngu tímabæran, en Sameinuðu þjóðirnar fagna 70 ára afmæli á þessu ári.

Fundurinn var opinn öllum aðildarríkjum SÞ en fulltrúar Angóla og Chad, sem eiga sæti í Öryggisráðinu, voru ekki viðstaddir. Kína, Malasía, Nígería og Rússland áttu fulltrúa á fundinum en þeir tjáðu sig ekki.

Samkynhneigð er ólögleg í fleiri en 75 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Þau eru 193 talsins.

Samantha Power ræðir við blaðamenn að fundi loknum.
Samantha Power ræðir við blaðamenn að fundi loknum. AFP

Adnan sagði ráðinu að Ríki íslam hefðu nýtt sér hómófóbíuna sem er landlæg í Mið-Austurlöndum.

„Í mínu samfélagi jafngildir samkynhneigð dauða og þegar Rí myrðir samkynhneigða gleður það flesta því fólk heldur að við séum illir, og orðstír Rí vex við það,“ sagði hann.

Nahas biðlaði til stjórnvalda um að veita minnihlutahópum grið á grundvelli kynhneigðar, þannig að þeir mættu finna til öryggis á ný. Þá kallaði hann eftir aðgerðum til að binda enda á átökin í Sýrlandi, sem hafa nú staðið yfir í á fimmta ár.

Í samtali við fjölmiðla eftir fundinn ítrekaði Nahas að „LGBT“ - Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender - væri ekki uppfinning Vestursins og að minnihlutahópar í Mið-Austurlöndum væru líka að berjast fyrir réttindum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert