Baulað á Merkel við flóttamannamiðstöð

Angela Merkel við flóttamannamiðstöðina í Heidenau í morgun.
Angela Merkel við flóttamannamiðstöðina í Heidenau í morgun. AFP

Hópur hægriöfgamanna baulaði og hrópaði ókvæðisorð að Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þegar hún heimsótti miðstöð fyrir flóttamenn í austur-þýsku borginni Heidenau í dag. Ofbeldisfull mótmæli hafa átt sér stað í borginni gegn komu flóttamanna.

Um 200 manns bauluðu á Merkel og hrópuðu meðal annars að henni „Svikari, svikari“ og „Við erum lýðurinn“ en Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, lýsti öfgahægrimótmælendunum sem „lýð“ þegar hann heimsótti borgina á mánudag. Þá flautuðu margir ökumenn á Merkel þegar þeir óku fram hjá eins og öfgahópar höfðu hvatt fólk til að gera á samfélagsmiðlum fyrir heimsókn hennar.

Merkel ræddi við forsætisráðherra Saxlands og borgarstjóra Heidenau og hitti flóttamennina og félagsliða miðstöðvarinnar sem var opnuð nýverið.

Um síðustu helgi stóðu öfgahægrimenn fyrir óeirðum í borginni og kom til átaka á milli þeirra og lögreglu þegar þeir mótmæltu opnun flóttamannamiðstöðvarinnar.

Borgarbúar fylgjast með heimsókn kanslarans í flóttamannamiðstöðina.
Borgarbúar fylgjast með heimsókn kanslarans í flóttamannamiðstöðina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert