Fundu lík sjö fanga í ruslapokum

Meðlimir Mara Salvatrucha í járnum við dómshús í Guatemala-borg. Myndin …
Meðlimir Mara Salvatrucha í járnum við dómshús í Guatemala-borg. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Lík sjö fanga fundust í ruslapokum í hámarksöryggisfangelsi í Guatemala í dag. Þau báru þess merki að fangarnir hefðu verið pyntaðir. Starfsmenn fangelsisins fundu líkin á svæði þar sem meðlimum glæpagengisins Mara Salvatrucha er haldið, en það er eitt þeirra fíkniefnagengja sem er talið bera ábyrgð á þeirri öldu ofbeldis sem nú gengur yfir Mið-Ameríku.

Talsmaður fangelsisins sagði að enn ætti eftir að bera kennsl á líkin. Yfirvöld rannsaka m.a. hvort fangarnir hafi verið myrtir í átökum milli samkeppnisaðila í glæpaheiminum.

Hinn 8. ágúst sl. fundust þrír fangar myrtir í sama fangelsi í borginni Cuilapa. Þau lík báru einnig merki pyntinga, en yfirvöld sögðu að viðkomandi hefðu ekki verið meðlimir þekktra gengja.

Hámarksöryggisfangelsið sem um ræðir hýsir 521 fanga, þeirra á meðal 286 sem tilheyra Mara Salvatrucha. Meðlimir glæpagengisins eru þekktir fyrir að bera flúr á stórum hluta líkamans.

Átök þess við önnur gengi eru talin ein af orsökum þess að Mið-Ameríka er eitt ofbeldisfyllsta svæði heims. Af þeim fjórum löndum þar sem tíðni morða er hæst eru fjögur í Mið-Ameríku. Guatemala er í fimmta sæti á hinum ömurlega lista, en þar eru 40 morð framin á hverja 100.000 íbúa á ári hverju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert