Um 4% hækkun á mörkuðum vestanhafs

Á uppleið?
Á uppleið? AFP

Hækkun varð á hlutabréfamörkuðum vestanhafs í dag en þegar markaðir lokuðu hafði Dow Jones-vísitalan hækkað um 619 stig og er um að ræða þriðju mestu hækkun á einum degi í sögu vísitölunnar í stigum talið. Hækkunin jafngildir 3,95%.

S&P-vísitalan hækkaði um 3,9% og Nasdaq um heil 4,24%.

Hækkun varð á hlutabréfum allra fyrirtækja sem mynda Dow 30-vísitöluna en mest var hún hjá Merck, 6,4%, sem hafði fallið hvað mest í gær. Bréf í nokkrum öðrum fyrirtækjum hækkuðu um meira en 5%, m.a. Apple, JPMorgan Chase, Microsoft, Nike, Visa og ExxonMobil.

Um leið og markaðir opnuðu vestanahafs í morgun birtust grænar tölur á skjám fjárfesta og í stað þess að gefa eftir þegar á leið líkt og í gær, þá náði hækkunin auknum skriðþunga fyrir lokun.

„Markaðurinn hefur fundið fæturna,“ segir Chris Low, yfirhagfræðingur hjá FTN Financial. „Ég get ekki fullyrt að botninum hafi verið náð en mér líður vel með að láta mína eigin peninga vinna.“

Um er að ræða fyrsta daginn af sjö þar sem markaðir vestanhafs enda ekki í mínus. Líkur þykja á að bandaríski seðlabankinn fresti fyrirhugaðri vaxtahækkun í ljósi óróans undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert