Dauði Knúts loksins útskýrður

Hér má sjá Knút í dýragarðinum í desember 2010.
Hér má sjá Knút í dýragarðinum í desember 2010. AFP

Margir muna eftir ísbjarnarhúninum Knúti sem fæddist í dýragarði í Berlín í Þýskalandi árið 2006. Líf Knúts var ekki laust við dramatík en móðir hans afneitaði honum stuttu eftir fræðingu. Nú hefur verið greint frá því hvað það var nákvæmlega sem varð til þess að Knútur drukknaði í laug sinni í dýragarðinum fyrir framan fjölmarga gesti dýragarðsins árið 2011.

Að sögn sérfræðinga fékk Knútur flog sem varð til þess að hann drukknaði. Flogið varð vegna sjálfsofnæmissjúkdóms sem varð til þess að heili ísbjarnarhúnsins bólgnaði upp.

„Allir muna þegar hann fæddist, hvernig hann var kynntur fyrir almenningi, hvernig hann lifði og drapst. Núna fáum við loksins að ljúka málinu. Við getum núna sagt að þetta er ástæða þess að hann drapst,“ sagði Alex Greenwood sem starfar hjá Leibniz stofnuninni sem sérhæfir sig í rannsóknum á dýrum í dýragörðum og í náttúrunni.

Greint var frá dauðaorsökinni í tímaritinu Scientific Reports en þetta er í fyrsta skipti sem dýr er greint með heilabólgu af gerðinni NMDAR, sem er afar sjaldgæf meðal mannfólks.

Lagður í einelti og þráði athygli

Knútur fæddist í dýragarðinum í desember 2006 og varð fljótlega heimsfrægur og fjölmargir sóttu í garðinn til þess eins að sjá Knút. En líf hans var enginn dans á rósum. Stuttu eftir fæðingu afneitaði móðir Knúts honum, tvíburi hans drapst nokkurra daga gamall og dýragarðsstarfsmaðurinn sem ól hann upp lést árið 2008. Talið er að Knútur hafi verið lagður í einelti af öðrum ísbjörnum og að hann hafi þjáðst af atferlistruflun sem varð til þess að hann sótti í athygli mannfólks. Til eru dæmi um að Knútur hafi fengið bræðiköst ef hann fékk ekki athygli.  

En Knútur fékk vissulega sinn skerf að athygli og græddi dýragarðurinn milljónir evra á veru hans þar. Þar að auki birtist hann á forsíðu tímaritsins Vanity Fair og á þýskum frímerkjum.

Knútur var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann drapst og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fjölmargir komu að búri hans og skildu eftir blóm, kerti og kort. Þar að auki var stytta af birninum, sem heitir „Dreymandi Knútur“ reist til minningar um hann.

Grunur var á að hann hafi fengið flog vegna  heilabilunar en ekki hefur verið vitað um nákvæma orsök flogsins fyrr en nú. Einkenni NMDAR heilabólgu hjá mannfólki er meðal annars höfuðverkir, hár hiti, ofsjónir, árásarhneigð og flog. Sjúkdómurinn var fyrst uppgötvaður árið 2007 og herjar hann helst á ungar konur.

Hér fyrir neðan má sjá myndband við þýskt lag sem samið var um Knút. Að sjálfsögðu fylgja fjölmörg myndskeið af Knúti með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert