Flugliðum nú leyft að eignast fjölskyldu

Vél í eigu Qatar Airways.
Vél í eigu Qatar Airways. Ljósmynd/Wikipedia

Alþjóðlegt bandalag samgöngustarfsmanna (ITF) segir að flugfélagið Qatar Airways hafi skammast til þess að breyta reglum félagsins, sem kváðu á um uppsagnir flugliða sem urðu barnshafandi eða giftust á fyrstu fimm árum sínum hjá fyrirtækinu.

Forseti ITF, Paddy Crumlin, sagði að flugfélaginu hefði ekki tekist að fela sannleikan bakvið verðlaun fyrir framúrskarandi þjónustu og að um væri að ræða fyrsta sigurinn í baráttunni fyrir réttindum starfsmanna.

Stjórnendur Qatar Airways sögðu í gær að reglurnar hefðu fallið úr gildi á síðustu sex mánuðum. „Reglur okkar hafa þróast í takt við vöxt flugfélagsins,“ sagði talskona.

Samkvæmt nýjum reglum verður barnshafandi starfsmönnum nú boðin tímabundin störf á jörðu niðri og þeir geta gengið í hjónaband, að því gefnu að þeir láti fyrirtækið vita.

Crumlin sagði að vonir ITF og starfsmanna Qatar Airways stæðu nú til þess að fyrirtækið tæki einnig á því sem hefur verið kallað „andrúmsloft óttans“. Mikið væri ógert, en talið er að aðrar umdeildar reglur, sem m.a. kveða á um að kvenkyns starfsmenn skuli sóttir í vinnuna af feðrum, bræðrum eða eiginmönnum, séu enn í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert