Fyrsta konan á stóli forsætisráðherra

Vassiliki Thanou.
Vassiliki Thanou. AFP

Prokopis Pavlopoulos, forseti Grikklands, tilkynnti í dag að hann hefði valið Vassiliki Thanou, yfirforseta hæstaréttar Grikklands, til að sitja í embætti forsætisráðherra fram að þingkosningum, sem munu líklega fara fram í september.

Thanou, 65 ára, verður fyrsta konan til að sinna starfi forsætisráðherra Grikklands. Hún er m.a. þekkt fyrir að hafa sent tilfinningaþrungið bréf til Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í febrúar sl. þar sem hún sagði niðurskurð vera að ganga að grísku þjóðinni dauðri.

„Þjóðin er ekki ábyrg fyrir sóun fyrri ríkisstjórna á almannafé né mistaka í skattinnheimtu,“ sagði Thanou. Hún sagði að aðhaldsaðgerðir hefðu mistekist; hinir ríku héldu áfram að stinga undan skatti og samdrátturinn væri viðvarandi.

Thanou mun sverja embættiseið í dag og ríkisstjórn hennar á morgun. Líkur standa til að þingkosningar verði haldnar 20. september næstkomandi.

Fráfarandi forsætisráðherra, Alexis Tsipras, hefur útilokað að mynda þjóðstjórn ef flokkur hans vinnur ekki hreinan meirihluta þingsæta. „Ég verð ekki forsætisáðherra sem vinnur með New Democracy, Pasok eða Potami,“ sagði hann í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert