„Hann var geðveikur maður sem náði sér í byssu“

Faðir fréttakonunnar Alison Parker, sem lét lífið í skotárás í gær, hefur gagnrýnt byssulöggjöf í Bandaríkjunum og sagði í viðtali að það ætti að vera erfiðara fyrir andlega veika að nálgast byssur.

NBC segir frá þessu.

Það vakti heimsathygli í gær þegar að Vester Flanagan skaut tvo fréttamenn til bana í Virginíu ríki Bandaríkjanna. Parker var að taka viðtal í beinni útsendingu þegar að Flanagan gekk að henni og tökumanninum Adam Ward og skaut þau bæði til bana. Viðmælandi Parker særðist og er nú á sjúkrahúsi. Nokkrum klukkustundum síðar kom í ljós að Flanagan hafði tekið árásina sjálfur upp á myndskeið og birt á Facebook. Í kjölfarið var aðgöngum hans að Facebook og Twitter lokað. Fjórum klukkustundum eftir morðin skaut Flanagan sig og lést hann á sjúkrahúsi tveimur klukkustundum síðar.

„Hann var geðveikur maður sem náði sér í byssu,“ sagði faðir Parker, Andy Parker, í samtali við Fox News í gærkvöldi. Hann hét því í gærkvöldi að gera eitthvað til þess að breyta byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Hann sagði að það þyrfti að gera eitthvað til þess að sjá til þess að fólk sem á ekki að fá aðgang að vopnum kaupi sér byssur.

Ekki hefur verið gefið upp hvernig Flanagan eignaðist vopnið sem hann notaði til að drepa Parker og Ward. Ekki er heldur ljóst hvort að eitthvað í fortíð Flanagan hafi sett hann í sérstakan flokk þeirra sem eiga ekki að geta keypt byssur í Bandaríkjunum.

Flanagan var 41 árs þegar hann lést í gær. Hann var rekinn af WDBJ7 sem starfar í Roanoke árið 2013. 

Í gær sendi Flanagan bandarískum fréttastofum 23 blaðsíðna símbréf þar sem hann heldur því m.a. fram að Parker hafi látið falla rasísk ummæli um Flanagan. Hann  hélt því jafnframt fram að Ward hafi komið illa fram við hann.

Kærasti Parker, Chris Hurst, sem starfar einnig á WDBJ7 hefur vísað þessum ásökunum á bug. „Alision og Adam hötuðu engan og sýndu aldrei hatur eða illan vilja,“ sagði Hurst í gærkvöldi. „Ég held ekki að starfsmenn WDBJ7 einhvertímann verið viljandi ókurteis eða óréttlát við hann,“ bætti Hurst við.

Forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton tjáði sig um málið í gær. Hún sagði að byssur væru of aðgengilegar í Bandaríkjunum og það þyrfti að endurskoða byssulöggjöfina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert