99% viss um að lestin sé til

Aðstoðarráðherra menningarmála í Póllandi sagði í dag að hann hafði fengið að sjá ratsjármyndir af því sem talið er að sé lest frá tímum nasista. Hann segist 99% viss um að lestin sé til.

Fjölmiðlar í póllandi hafa undanfarna daga fjallað með goðsagnakenndum hætti um lest sem á að vera full af gulli og gimsteinum sem nasistar stálu af gyðingum eftir að tveir menn - annar þýskur, hinn pólskur - segjast hafa fundið brynvarða lest í borginni Walbrzych.

„Ég fékk að sjá ratsjármynd sem sýndi í miklum gæðum hvernig lestin lítur út,“ sagði Piotr Zuchowski, aðstoðaráðherra menningamála í Póllandi. Hann sagðist jafnframt hafa getað greint byssupalla á lestinni.

„Ég er meira en 99% viss um að lestin er til, en það er ekki hægt að segja til um hvað hún hefur að geyma.“ Uppgötvunin varð til þess að heimsþing gyðinga (e. World Jewish Congres, WJC) tjáði sig um málið.

„Ef einhverjum þeirra muna sem eru í lestinni var stolið af gyðingum sem voru myrtir eða sendir í þrælabúðir þá þarf að gera allt sem hugsast getur til að koma þeim í hendur réttmætra eigenda eða erfingja þeirra,“ sagði Robert Singer, framkvæmdastjóri WJC í yfirlýsingu. „Ef engir eftirlifendur eða erfingjar finnast er rétt að ágóðinn renni til pólskra gyðinga sem lifðu Helförina af,“ segir í yfirlýsingunni.

Zuchowski segir að mennirnir tveir sem segjast hafa fundið lestina óski nafnleyndar, en að þeir eigi rétt á 10% af verðmæti lestarinnar og það sem í henni er í fundarlaun. „Sú staðreynd að lestin er brynvarin bendir til þess að hún innihaldi verðmæti,“ sagði hann, eins og til dæmis listaverk eða fjársjóði.

Gæti verið full af gildrum

Hann varaði þó við því að lestin gæti verið varin með alls konar gildrum, en neitaði að gefa upp hvar hún er niður komin. „Mér skilst að enginn hafi komið nálægt henni síðan í stríðinu.“ Hann segir að einhver sem hafi komið að því að fela lestina, sem er yfir 100 metra löng, hafi gefið upp staðsetningu hennar munnlega.

„Þessi einstaklingur hefur haldið þessum upplýsingum fyrir sig þangað til hann lá banaleguna, ásamt því að koma áleiðis uppdrætti af því hvar lestin væri,“ bætti aðstoðarráðherrann við, án þess að segja hver þessi einstaklingur væri.

Allt frá stríðslokum hefur þrálátur orðrómur verið á kreiki um að nasistalest sérstaks eðlis hafi horfið í lok stríðsins, orðrómur sem hefur kynt undir ímyndunarafl fjársjóðsleitar- og ævintýramanna.

Orðrómurinn á rætur sínar að rekja til umfangsmikilla jarðganga sem nasistar fyrirskipuðu að yrðu grafin í lok stríðsins nærri Walbrzych - þar á meðal í kringum hinn gríðarstóra Ksiaz-kastala - og talið er að geymi falda fjársjóði þriðja ríkisins. Í dag mátti sjá tugi forvitinna áhorfenda í kringum lestarteina í borginni þar sem lestin gæti verið falin.

Göng undir Ksiaz kastala.
Göng undir Ksiaz kastala. AFP
Ksiaz-kastali.
Ksiaz-kastali. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert