Hafa handtekið ökumanninn

Lögregluyfirvöld í Ungverjalandi hafa handtekið ökumann flutningabifreiðar sem fannst með 71 lík innanborðs við hraðbraut í Austurríki í gærmorgun. Þrír Búlgarar og einn Afgani hafa verið handteknir í tengslum við málið og þá hafa 20 verið yfirheyrðir og húsleitir verið framkvæmdar.

Lögregla í Austurríki hafði áður sagt frá því að eigandi bifreiðarinnar væri búlgarskur ríkisborgari af líbönskum uppruna.

Meðal látnu voru 59 karlar, átta konur, þrír drengir á aldrinum 8-10 ára og eins til tveggja ára stúlkubarn.

Lögregla sagði á blaðamannafundi í dag að eitt sýrlenskt vegabréf hefði fundist meðal fórnarlambanna en sagði of snemmt að segja til um hvaðan fólkið hefði komið.

„Við höfum þrjá í haldi í Ungverjalandi og eigum von á því að þetta sé sá þráður sem muni leiða okkur að gerendunum,“ sagði yfirlögreglustjóri Burgenland, Hans Peter Doskozil.

Bifreiðin lagði af stað frá Búdapest snemma á miðvikudagsmorgun og náði landamærum Ungverjalands og Austurríkis um kl. 9. Hún fór yfir landamærin til Austurríkis næstu nótt og sást á A4 þjóðveginum um kl. 5 eða 6 á fimmtudagsmorgun.

Ástand líkamsleifanna gerði lögreglu erfitt fyrir að ákvarða fjölda látinna og ekki hafa verið borin kennsl á fólkið.

Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, sagði um að ræða harmleik sem snerti alla. „Fólkssmyglarar eru glæpamenn. Þeir hafa engan áhuga á velferð flóttafólks. Aðeins ágóða.“

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert