Látin í tæpa tvo sólarhringa

AFP

Fjögur börn eru meðal þeirra flóttamanna sem fundust látnir í flutningabifreið í Austurríki í gær. Auk þeirra voru lík 59 karla og átta kvenna í bílnum en alls fannst 71 lík í bílnum. Talið er að um Sýrlendinga sé að ræða.

Á blaðamannafundi austurrísku lögreglunnar kom fram að fólkið hafði verið látið í einn og hálfan til tvo sólarhringa þegar það fannst í gærmorgun. Þrír Búlgarar voru handteknir í tengslum við málið í Ungverjalandi.

Köfnuðu væntanlega

Ekki er vitað hver dánarorsökin er en talið er að fólkið hafi verið látið þegar flutningabíllinn kom yfir landamæri Austurríkis frá Ungverjalandi.

Talsmaður lögreglunnar, Hans Peter Doskozil, segir að sýrlensk persónuskilríki hafi fundist á fólki í bílnum og því talið að um Sýrlendinga sé að ræða. Yngsta barnið er ekki meira en eins eða tveggja ára segir hann. 

Það voru menn við vegavinnu við A4 hraðbrautina á milli Neusiedl og Parndorf sem fundu flutningabílinn í gær en hann hafði verið skilinn eftir við veginn skammt frá Parndorf. Talið er að hann hafi verið þar síðan á miðvikudag. Væntanlega hefur fólkið kafnað í kæligámi bílsins. 

Bíllinn fór frá Búdapest snemma á miðvikudagsmorgninum og fór yfir landamæri Austurríkis um níu leytið að morgni miðvikudags. Það var síðan um sex leytið í gærmorgun að verkamennirnir fóru að kanna með bílinn. 

Flutningabíllinn er merktur slóvenskum kjúklingaframleiðanda en kjúklingafyrirtækið, Hyza, segir að bíllinn sé ekki lengur í eigu fyrirtækisins. Aðstoðarmaður forsætisráðherra Ungverjalands, Janos Lazar, segir í samtali við BBC að bíllinn væri skráður á rúmenskan borgara búsettan í ungversku borginni Kecskemet.

 Doskozil sagði á blaðamannafundinum í morgun að ekki væri algengt að fólki væri smyglað í kæligámum

Yfir 300 þúsund flóttamenn

Í morgun var greint frá því að yfir þrjú hundruð þúsund höfðu flúið yfir Miðjarðarhaf í ár til Evrópu en meira en 2.500 þeirra fórust á leiðinni. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa yfir 200 þúsund komið að landi í Grikklandi í ár og 110 þúsund hafa náð landi á Ítalíu. Á sama tímabili í fyrra voru flóttamennirnir 219 þúsund talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert