Legið tengir þrjá ættliði saman

Drengurinn kom í heiminn á sjúkrahúsi í Svíþjóð í lok …
Drengurinn kom í heiminn á sjúkrahúsi í Svíþjóð í lok síðasta árs. AFP

„Ég get ekki lýst því hversu hamingjusöm við erum. Þetta er allt sem ég óskaði og jafnvel dálítið meira,“ segir sænsk kona sem eignaðist son fyrir níu mánuðum. Leg móður hennar var grætt í hana en leg konunnar var fjarlægt eftir að hún fékk krabbamein rúmlega tvítug.

Hún ræddi við AP-fréttaveituna en þetta er í fyrsta skipti sem hún tjáir sig um ferlið sem gerði henni kleift að ganga með barn. Konan og eiginmaður hennar eru nú að reyna að eignast annað barn.

Samþykkti strax að gefa henni legið

Drengurinn var tekinn með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Svíþjóð í lok síðasta árs eftir 31 vikna meðgöngu. Drengurinn vóg 1,36 kíló sem er eðlilegt  fyrir þennan meðgöngutíma. Eftir fæðingu barnsins var haft eftir föðurnum í fjölmiðlum að eftir frekar erfitt ferðalag síðustu ár ættu þau nú dásamlegt barn.

„Hann er mjög, mjög sætur og hann öskrar ekki einu sinni,“ var haft eftir honum. „Hann er ekkert öðruvísi en önnur börn en hann mun hafa góða sögu að segja. Einn daginn mun hann geta lesið blaðagreinar sem fjalla um hvernig hann fæddist og vitað að hann var fyrsta barnið til að koma í heiminn á þennan hátt,“ sagði faðir hans.

Konan, sem nú er rúmlega þrítug, rifjar upp augnablikið þegar starfsfólk sjúkrahússins ýtti móður hennar inn á sjúkrahúsið. Taka átti legið úr henni og græða það í dóttur hennar. „Ég grét, sagði henni að ég elskaði hana og þakkaði henni fyrir að gera þetta,“ segir konan í samtali við AP.

Móðir konunnar segir að hún hafi þegar í stað samþykkt að gefa legið þegar dóttir hennar minntist fyrst á aðgerðina. Hún segist eiga erfitt með að skilja umfang fæðingarinnar en hún viti þó að hún sé nú hluti af sögunni.

Reyna að eignast annað barn

Konan gekkst undir tæknifrjóvgun ári eftir legígræðsluna og varð hún þunguð eftir fjórar tilraunir. Eftir það gekk allt vel fyrir sig. „Það var dásamlegasta tilfinning í heimi að finna hann við vanga minn,“ segir konan. Annað nafn drengsins er Mats, í höfuðið á Mats Brannstrom sem er að baki byltingarkenndu aðgerðinni.

Konan segist einn daginn ætla að segja syni sínum hvernig hann kom í heiminn. „Ég vil að hann muni alltaf vita hversu mikið við vildum fá hann,“ segir hún og vonast til þess að innan nokkurra ára, þegar hann verður eldri, muni legígræðsla vera viðurkennd fyrir konur í hennar stöðu og hann muni vita að hann hafi verið hluti af því ferli.

Konan og eiginmaður hennar reyna nú að eignast annað barn en ekki er reiknað með því að hún muni ganga með fleiri en tvö börn með þessu legi. Eftir það verður legið fjarlægt og þá mun getur hún hætt að taka lyf sem koma í veg fyrir að líkaminn hafni leginu.

Greinin er unnin upp úr umfjöllun AP/Telegraph

Frétt mbl.is: Fóru í legígræðslu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert