Systirin sem hún myrti var dóttir hennar í raun

Indrani Mukerjea
Indrani Mukerjea Ljósmynd/ Facebook

 Óvenjulegt morðmál hefur skekið Indland síðustu daga en sagan á bakvið það er svo flókin að málið virðist fremur eiga heima í sápuóperu en í raunveruleikanum.

Á þriðjudag var fjölmiðlakonan Indrani Mukerjea handtekin vegna gruns um að hún hafi myrt systur sína, Sheena Bora, fyrir þremur árum. Næsta dag þurftu yfirvöld hins vegar að breyta kærunni þegar í ljós kom að Sheena var hreint ekki systir Indrani, heldur dóttir hennar. Sheena er sögð dóttir Indrani og fyrrverandi eiginmanns hennar, Siddarth Das. Þar að auki kom í ljós að Mukerjea ætti líka soninn Mikhail Bora en líkt og með Sheenu hafði Indrani sagt öllum í kringum sig að hann væri bróðir hennar.

En þetta er ekki allt.

Indrani er gift Peter Mukerjea, fyrrverandi forstjóra sjónvarpsstöðvarinnar Star India. Parið á eitt barn saman en að auki á Peter soninn Rahul úr fyrra hjónabandi og indverskir miðlar hafa greint frá því að Rahul og Sheena hafi fellt hugi saman, en hann hélt að hún væri stjúpfrænka hans en ekki stjúpsystir.

Samkvæmt Times of India hefur Indira játað að hafa kyrkt dóttur sína þann 24. apríl 2012 í bíl í Mumbai með hjálp fyrrverandi eiginmanns síns, Sanjeev Khanna, og bílstjórans Shyamvar Rai. Lögregla hefur staðfest að eftir að Sheena hafi verið kyrkt hafi bensíni verið hellt yfir líkið og kveikt í. Líkið fannst mánuði seinna, þann 23. maí 2012. Virðist sem svo að fyrst hafi verið borin kennsl á það nú enda hafði aldrei verið lýst eftir Sheenu þar sem Indrani sagði hana hafa farið til Bandaríkjanna í háskólanám. Segir lögregla Indrani jafnvel hafa fengið þriðja aðila til að falsa undirskrift Sheenu á uppsagnarbréfum til yfirmanns síns og leigusala. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist Rahul hafa reynt að finna Sheenu eftir að hún hvarf en án árangurs. 

Ástæðan að baki morðinu virðist ekki ljós en indverskir fjölmiðlar hafa velt því upp að það tengist ásökunum um að Mukerjea-hjónin hafi verið sökuð um að draga sér fé.

Bróðir Sheenu, Mikhail, hefur sagst vita nákvæmlega af hverju hún myrti systur hans en hann vilji ekki segja meira fyrr en móðir hans hefur sagt hver ástæðan er. Eiginmaður Indrani segir Sheenu hafa reynt að segja sér að hún væri dóttir Indrani en hann hafi ekki trúað henni. Kveðst hann nú vinna með lögreglu eftir fremsta megni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert