Handtóku grunaða í Bangkok

Lýst var eftir þessum manni í kjölfar árásarinnar.
Lýst var eftir þessum manni í kjölfar árásarinnar. Royal Thai Police

Lögregluyfirvöld í Bangkok segjast hafa handtekið mann í tengslum við sprenginguna sem varð 20 að bana í höfuðborg Taílands fyrir nærri tveimur vikum. Lögreglumenn réðust inn á heimili mannsins í dag og fundu möguleg efni til sprengjugerðar.

Að sögn talsmanns lögreglu líkist maðurinn þeim sem lýst var eftir í kjölfar árásarinnar.

Talsmaðurinn sagði að handtekni væri útlendingur en neitaði að segja til um hvort hann væri tyrkneskur, líkt og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum í Bangkok.

Lögregla sagðist á sínum tíma gruna að árásin hefði verið skipulögð með mánaðarfyrirvara og að minnsta kosti tíu manns væru viðriðnir málið. Hún sagði hins vegar ólíklegt að árásin tengdist alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Handtökuskipun var gefin út á hendur manni sem upptökur sýndu skilja eftir bakpoka við hofið þar sem sprengingin átti sér stað 17. ágúst sl. Verðlaun að andvirði 18 þúsund punda voru boðin þeim sem gætu gefið upplýsingar um manninn en ekki er vitað hvort þau leiddu til handtökunnar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert