Kröfðust framsals frá Skandinavíu

Edward Snowden býr nú í Moskvu.
Edward Snowden býr nú í Moskvu. AFP

Uppljóstrarinn Edward Snowden hefur ákveðið að ferðast ekki til Noregs til að taka á móti verðlaunum eftir að NRK birti skjöl sem sýna að árið 2013 fóru bandarísk yfirvöld fram á það við ríkin í Skandinavíu að þau framseldu Snowden ef hann kæmi þangað og óskaði eftir hæli.

Sumarið 2013 hafði Snowden yfirgefið hótel sitt í Hong Kong eftir að hafa komið bandarískum leyniskjölum í hendur valdra fjölmiðla og sat fastur á flugvelli í Moskvu, þaðan sem  hann sótti um hæli í nokkrum löndum, þeirra á meðal Noregi.

Þar sem bandarísku alríkislögregluna grunaði að Snowden myndi sækja um hæli í Skandinavíu, reit hún bréf frá sendiráði Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn til lögregluyfirvalda í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi til að upplýsa þau um að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefði ákært uppljóstrarann fyrir þjófnað og njósnir og gefið út handtökuskipun á hendur honum.

Þá segir í bréfinu, sem er dagsett 27. júní, að yfirvöld vestanhafs séu undir það búin að fara fram á framsal Snowden hvaðan sem hann ferðast frá Moskvu. „FBI lýsir þakklæti sínu fyrir hverja þá aðstoð sem veita má hvað þetta varðar,“ segir í bréfinu.

Í öðru bréfi sem sent var utanríkisráðuneyti Noregs sama dag fer sendiráðið Bandaríkjanna í Osló fram á það að stjórnvöld í Noregi komið því til leiðar að Snowden verði færður aftur til Bandaríkjanna með því að neita honum um landvist, flytja hann úr landi eða með öðrum lagalegum aðferðum.

Í enn öðru bréfi, sem er dagsett 4. júlí, ítrekar sendiráðið ósk sína um að Snowden verði hantekinn og framseldur til Bandaríkjanna samkvæmt framsalssamningi milli landanna frá 1977.

Ótti Assange ekki ástæðulaus

Lögmaður Snowden, Ben Wizner, sagði í samtali við NRK að hann grunaði að bandarísk yfirvöld hefðu sent áþekk bréf til flestra ríkja Evrópu og annarra landa utan álfunnar.

Snowden hefur verið boðið til Noregs í næstu viku til að taka á móti Bjørnson-verðlaunum norsku bókmennta- og tjáningarfrelsis akademíunnar, en hefur ákveðið að fara ekki þar sem hann hefur ekki fengið tryggingu frá norskum yfirvöldum um að hann verði ekki framseldur.

Stjórnvöld í Noregi segja að þau hafi ekki svarað kröfum alríkislögreglunnar bandarísku né sendiráðs Bandaríkjanna í Osló um að framselja Snowden þar sem hann hafi ekki komið til landsins.

Julian Assange, stofandi Wikileaks, hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum í um þrjú ár, þar sem hann hefur ítrekað sagt að hann óttist að verða framseldur til Bandaríkjanna ef hann gefur sig fram við yfirvöld í Svíþjóð vegna ásakana um kynferðisbrot.

Thomas Olsson, einn lögmanna Assange í Stokkhólmi, sagði í samtali við Guardian að uppljóstrun NRK um kröfur bandarískra yfirvalda sýndu að þau væru staðráðin í að koma höndum yfir þá sem þau teldu að hefðu ógnað öryggi landsins og það ætti að sjálfsögðu við um Julian Assange.

Assange er, eins og kunnugt er, stofnandi Wikileaks.

Guardian sagði frá.

Bréfin sem NRK hefur birt virðast staðfesta að ótti Julian …
Bréfin sem NRK hefur birt virðast staðfesta að ótti Julian Assange um að verða framseldur til Bandaríkjanna frá Svíþjóð sé ekki ástæðulaus. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert