Lágmarkslaunin 363 krónur á dag

Fólk bíður á lestarstöð í þorpinu Taungbyone.
Fólk bíður á lestarstöð í þorpinu Taungbyone. AFP

Stjórnvöld í Búrma, öðru nafni Myanmar, hafa samþykkt að koma á lágmarkslaunum í fyrsta sinn í sögu ríkisins, en langar og erfiðar viðræður hafa staðið yfir um málið við verkalýðsfélög og atvinnurekendur.

Lágmarkslaunin nema 363 krónum fyrir „hefðbundinn átta tíma vinnudag“.

Nýja kaupið mun gilda fyrir „alla geira og allan iðnað“ en lítil fyrirtæki með færri en 15 starfsmenn eru að vísu undanþegin.

Mikil mótmæli hafa verið haldin í Búrma síðustu misseri, þar sem fólk hefur farið fram á hærra kaup og betri vinnuaðstæður. Þar hafa starfsmenn sem starfa við framleiðslu fatnaðar verið fremstir í flokki.

Margir atvinnurekendur voru mjög á móti lágmarkslaunasetningunni, jafnvel þótt þarna virðist um afar litlar upphæðir að ræða. Þeir segja að framleiðni starfsfólks standi ekki undir hærra kaupi en þeir hafa greitt hingað til.

Þrýstingur um lágmarkslaun hefur hins vegar einnig komið erlendis frá, þar sem vestræn fyrirtæki hafa haldið því fram að það sé framleiðendum ekki til góða að halda launum í lágmarki.

Í nágrannaríkinu Taílandi nema lágmarkslaunin 1.038 krónum á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert